Home Fréttir Í fréttum Lárus Welding orðinn stjórnarformaður Þingvangs

Lárus Welding orðinn stjórnarformaður Þingvangs

333
0
Eigandi verktakafyrirtækisins segist hafa fengið Lárus í stjórn vegna þekkingar sinnar og reynslu.

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, hefur tekið sæti í stjórn Þingvangs, sem er eitt stærsta byggingarfélag landsins, og gegnir þar stöðu stjórnarformanns.

<>

Pálmar Harðarson, eigandi Þingvangs, segir í samtali við Innherja að stjórnarseta Lárusar þýði ekki að breytingar hafi orðið á eignarhaldi félagsins. Hann hafi fengið Lárus í stjórn vegna þekkingar sinnar og reynslu.

Lárus er hluthafi í Stoðum með rúmlega eins prósents hlut sem félag í hans eigu keypti í árslok 2020 þegar Landsbankinn seldi 12 prósenta hlut sinn í fjárfestingafélaginu.

Hann hefur um árabil starfað sem sjálfstæður ráðgjafi og kom meðal annars að kaupum fjárfestingasjóðsins Mousse Partners, sem stýrt er af fjölskyldunni sem á tískuhúsið Chanel, á tæplega helmingshlut í Sjóklæðagerðinni 66°Norður sumarið 2018.

Íslenskir eigendur 66°Norður sögðu að tengsl Lárusar í London hefðu ráðið úrslitum en það var fyrir tilstilli hans að fjárfestingabankinn Rothschild, sem tekur yfirleitt ekki að sér fjármögnunarverkefni undir 100 milljónum evra, samþykkti að veita þeim ráðgjöf í söluferlinu.

Þingvangur velti 7,2 milljörðum króna á árinu 2020 en tap af rekstrinum nam 840 milljónum. Samkvæmt ársreikningi félagsins hafði Covid-19 heimsfaraldurinn hafði þau áhrif að Þingvangur þurfti að breyta um aðferðir við skil á íbúðum þar sem forunnar einingar erlendis frá var ekki hægt að fá afhentar tímanlega. Tók félagið á sig mikinn aukakostnaður til að geta afhent íbúðir á réttum tíma og skýrir að hluta til tap á árinu.

Heimild: Visir.is/Innherji