Home Fréttir Í fréttum Áform um lagfæringar á Blöndubrú

Áform um lagfæringar á Blöndubrú

123
0

Vegagerðin hefur áform um að lagfæra og bæta þjóðveginn í gegnum Blönduós og Blöndubrú. Endurnýja á gólf brúarinnar og setja á hana nýtt handrið. Áætlaður kostnaður nemur um 30 milljónum króna. Samhliða framkvæmdunum verður vegurinn beggja megin við brúna breikkaður og er áætlaður kostnaður við það um 10 til 15 milljónir króna. Engin ákvörðun hefur verið tekin um tímasetningu framkvæmda en þær eru háðar því að fjármagn fáist í nýrri samgönguáætlun.

<>

Í nýlegri skýrslu sveitarstjóra Blönduósbæjar sem lögð var fram á fundi sveitarstjórnar 13. október síðastliðinn kemur fram að haldinn hafi verið fundur með Vegagerðinni til þess að fara yfir þau verkefni sem snúa að henni.

Í skýrslunni kemur fram að undirbúningur að lagfæringum á Blöndubrú sé langt komin en varðandi aðrar framkvæmdir svo sem nýtt hringtorg og malbikun þá verði sveitarstjórn að beita sér fyrir þeirri framkvæmd við Samgönguráð og þingmenn kjördæmisins.

Í skýrslunni segir að ef farið yrði í endurgerð á hringtorgi þurfi sveitarfélagið að koma að þeirri framkvæmd og greiða 25% af kostnaði þar sem ein tengingin er inn á sveitarfélagsgötu, þ.e. Hnjúkabyggð. Kostnaður við nýtt hringtorg gæti numið um 50 til 60 milljónum króna. Þá megi gera ráð fyrir að nýtt malbik á veginn í gegnum Blönduós kosti um 20 til 25 milljónir króna. Heildarframkvæmdir við þessar úrbætur gætu því numið um 110 til 130 milljónir króna.

Á fundinum var einnig rætt um mögulega göngubrú neðan núverandi Blöndubrúar en frumkostnaðaráætlun við hana var um 80 milljónir. Í skýrslu sveitarstjóra segir að sveitarstjórn þurfi að beita sér fyrir þeirri framkvæmd við ráðherra, samgönguráð og þingmenn.

Þá var rætt um gömlu brúna og aðkomu Vegagerðarinnar að því að sandblása hana og mála ásamt því að setja hana upp og ganga frá brúargólfi ef hún yrði sett upp við Hrútey. Í skýrslunni segir að Vegagerðin hafði áður gefið vilyrði fyrir slíkri aðkomu en hefja þurfi málið að nýju þar sem langt sé um liðið síðan það var síðast rætt.

Heimild: Húni.is