Home Fréttir Í fréttum Sparnaður í húsnæði – Breytingar sem kalla á skoðun

Sparnaður í húsnæði – Breytingar sem kalla á skoðun

68
0

Stjórnvöld ákváðu að bjóða landsmönnum upp á þann möguleika að nýta greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað til þess að greiða inn á húsnæðisskuldir, gegn því að fá skattafslátt á móti. Þetta er skynsamleg aðgerð, að því er mér finnst. Már Wolfang Mixa, aðjúnkt í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, gerði það að umtalsefni á dögunum, hvers vegna fólk væri ekki almennt að nýta sér þessa leið.

<>

En hvernig er hið venjubundna viðbótarlífeyrissparnarkerfi byggt upp?

Til einföldunar má segja að fyrir hverjar þúsund krónur sem greiddar eru í viðbótarlífeyrissparnað, þá koma þúsund krónur á móti frá vinnuveitanda. Við útgreiðslu lífeyris er síðan greiddur skattur af þessari upphæð, sem nemur tæplega 40 prósentum. Af tvö þúsund krónum fara 800 krónur í skatt.

Með þessari nýju leið, er skatturinn alveg felldur niður, og fólki gefinn kostur á því að greiða það sem annars færi í viðbótarlífeyrissparnað beint inn á húsnæðisskuld. Þannig nýtast tvö þúsund krónurnar að fullu til greiðslu húsnæðisskulda.

Það er rétt hjá Má að þeir sem eru ekki að nýta sér þessa leið, eru að hafna ókeypis peningum, en nær útilokað er að ávöxtunin í viðbótarlífeyrissparnaðinum geti verið svo góð að hún trompi niðurfellingu skattsins. Síðan er fólk vonandi ekki búið að gleyma því, að viðbótarlífeyrissparnaður sem geymdur er í verðbréfum á innanlandsmarkaði getur gufað upp og orðið að engu, á skömmum tíma, eins og dæmin sanna.

Tvennt má nefna sem kallar á ítarlega skoðun og umræðu varðandi þessar breytingar, bæði hjá atvinnurekendum og fólki almennt.

Ef þessi leið verður fest í sessi, eins og stjórnarmálamenn virðast hafa áhuga á, þá þarf að ræða um hvatann sem býr að baki viðbótarlífeyrissparnaðarkerfinu. Í grunninn byggir hugmyndin um mótframlag atvinnurekenda á því, að ávöxtunarmarkaður með fjármagn eflist við það, þar sem fjármagnið fer út á markaðinn beint og þannig „í vinnu“ með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Með því að bjóða fólki að fá skattaafslátt gegn því að greiða beint inn á lán, þá er leið fjármagnsins orðin allt önnur og hugmyndin um að virkja ávöxtunarmarkaðinn er ekki fyrir hendi. Þetta þarf ekki að vera neitt slæmt, og almennt er gott að fólk hafi val. Hins vegar er nauðsynlegt fyrir atvinnurekendur og fólk almennt að ræða þessi mál, svo allir átti sig á því hvað það þýðir að breyta kerfinu með þessum hætti.

Fólk ætti ekki að þurfa að vera skráð í viðbótarlífeyrissparnaðarþjónustu til þess að nýta sér þetta úrræði. Sé verið að greiða féð og mótframlagið beint inn lán, þá er ekkert sem kallar á að það sé skráð í viðbótarlífeyrissparnaðarþjónustu og greiði þangað gjöld. Þá ættu þeir sem eru að greiða til erlendra viðbótarlífeyrissparnaðarfyrirtækja að óska eftir upplýsingum um það, hvenær fjármagnið byrjar í reynd að ávaxtast, einkum ef fólk ætlar sér að greiða lengi inn á lánin og þessi leið verður varanleg. Ávöxtunarferillinn er annar en hjá íslensku fyrirtækjunum, ekki síst þar sem eignasamsetningin erlendis er önnur. Þetta er langtímamiðað og hugsað sem slíkt, og allar svona breytingar, eins og hætta að greiða inn í nokkur ár, getur í reynd dregið verulega úr ávöxtun, þar sem kostnaðurinn er framhlaðinn og greiddur upp fyrst. Þetta eru eðlilegar spurningar sem fyrirtækin ættu að svara fljótt og vel.

Það er fagnaðarefni að fólki gefist kostur á því að greiða sparnað og mótframlag atvinnurekanda beint inn á lán, en það þyrfti að ræða um þessa breytingu í víðara samhengi. Einkum ef hún verður varanleg.

Heimild: Kjarninn.is