
Hafnarfjarðarbær og Knattspyrnufélagið Haukar undirrituðu á dögunum framkvæmdasamning um byggingu knatthúss á Ásvöllum. Samhliða afhenti félagið óbyggða lóð til Hafnarfjarðarbæjar undir uppbyggingu á 100 til 110 íbúðum.
Nánar tiltekið er um að ræða lóðina Ásvelli 3 sem varð til úr lóðinni Ásvellir 1 og er þegar skilgreind í samþykktu deiliskipulagi vegna þeirrar lóðar.

Með þessari eftirgjöf skapast aukið svigrúm til að hraða uppbyggingu knatthússins, að því er segir í tilkynningu. Þegar liggur fyrir samningur um hönnun knatthússins og er áætlað að fullnaðarhönnun verði lokið í apríl 2022. Samhliða hönnun er unnið að mati á umhverfisáhrifum hússins og er gert ráð fyrir að það mat liggi fyrir eigi síðar en á vordögum 2022. Þegar heildarhönnun knatthússins liggur fyrir, sem og mat á umhverfisáhrifum þess, verður bygging hússins boðin út.
Ásvellir 3 er lóð sem er staðsett við íþróttamiðstöð Hauka á Ásvöllum gengt Ásvallalaug og við friðland Ástjarnar. Leitast verður við að hraða sem mest uppbyggingu á lóð til að valda sem minnstu raski á svæðinu. Á lóðinni er heimilt að byggja fjölbýlishús á 2-5 hæðum, alls 100-110 íbúðir.
Heimild: Mbl.is