Home Fréttir Í fréttum Milljarður áætlaður í Fjarðarheiðargöng á þessu ári

Milljarður áætlaður í Fjarðarheiðargöng á þessu ári

355
0
Fjarðarheiði. Mynd úr safni. Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fjarðarheiðargöng verða boðin út á þessu ári og eiga framkvæmdir að hefjast í síðasta lagi á því næsta. Milljarður er áætlaður í verkið á þessu ári.

Fjarðarheiðargöng verða lengstu jarðgöng landsins 13,4 kílómetrar að lengd. Þau tengja Egilsstaði og Seyðisfjörð og leysa af hólmi fjallveginn um Fjarðarheiði sem er mikill farartálmi á veturna.

<>

Um Seyðisfjörð liggur eina tenging íslenska vegakerfisins við meginland Evrópu með ferjunni Norrænu.

Undirbúningur framkvæmda er í fullum gangi og er nú unnið að hönnun ganganna sjálfra og aðkomuvegum. Staðsetning gangamunna liggur fyrir en sveitarfélagið Múlaþing á enn eftir að svara því hvaða veglína verður fyrir valinu Egilsstaðamegin.

Þrjár veglínur eru í umhverfismati og verður afstaða ekki tekin fyrr en því er lokið. Vegagerðin ætlar að leggja fram umhverfismatsskýrslu seinna í þessum mánuði og gera útboðsgögn í vor.

Samkvæmt samgönguáætlun á einn milljarður að fara í göngin á þessu ári og svo milljarður á ári næstu tvö ár.

Í fjárlögum ársins eru framlög til einstakra framkvæmda ekki tíunduð og því gildir samgönguáætlun. Göngin eiga að kosta ríkið 17,5 milljarða króna og verður mesti þungi framkvæmda á árunum 2025-2029.

Ríkið fjármagnar verkið til hálfs en hitt greiðist með veggjöldum. Heildarkostnaður er áætlaður 35 milljarðar króna. Þessi fjármögnunarleið sem er að færeyskri fyrirmynd, á framvegis að gilda um ný jarðgöng en hefur þó enn ekki verið útfærð endanlega.

Líklega verður framkvæmdin fjármögnum í gegnum óstofnað félag. Samgönguráðherra sagði í fyrra að til stæði að bjóða verkið út á þessu ári og hefja framkvæmdir á því næsta. Göngin ættu að verða tilbúin á seinni hluta ársins 2029.

Heimild: Ruv.is