Home Fréttir Í fréttum „Íbúum svarað með þegjandi þögninni“

„Íbúum svarað með þegjandi þögninni“

199
0
Mynd: Yrki arkitektar - Akureyri.is
Mikil óánægja ríkir meðal íbúa í innbænum á Akureyri vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda í svokallaðri Spítalabrekku. Bæjaryfirvöld eru meðal annars gagnrýnd fyrir að huga ekki að menningargildi svæðisins né aurskriðuhættu.

Heildaryfirbragði hverfisins ógnað

Skipulagsráð Akureyrarbæjar samþykkti í byrjun nóvember að vinna að breytingu á skipulagi svæðis fyrir ofan Spítalaveg þannig að hægt verði að auka byggingarmagn í brekkunni. Ákvörðunin hefur mætt nokkurri gagnrýni í bænum.

<>

Hildur Friðriksdóttir, íbúi við Spítalaveg, segir margt gagnrýnisvert við þessar breytingar en einnig hvernig staðið var að úthlutun lóða til verktakans SS Byggis sem hún telur ganga þvert á úthlutunarreglur Akureyrarbæjar.

„Í öðru lagi snýst þetta um að vernda heildaryfirbragð hverfisins. Þarna erum við að tala um eina elstu íbúðagötu bæjarins og við þessa götu standa hús sem flest eru byggð fyrir 1910. Þannig að þarna er bara mjög mikilvægt að standa vörð um heildaryfirbragð götunnar.

Íbúar á móti því magni sem á að byggja

Hildur segir íbúa alls ekki vera að setja sig alfarið á móti því að byggt verði í brekkunni.

„Mér finnst mikilvægt að koma því á framfæri að við erum alls ekki að setja okkur upp á móti því að það verði byggt þarna. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að þarna verði byggt. Þetta snýst ekki um það við setjum okkur á móti uppbyggingu á þessu svæði. Hins vegar þarf að stíga þarna mjög varlega til jarðar því þetta er mjög rótgróið hverfi,“ segir Hildur.

Hildur segir fyrirhugað byggingarmagn einnig umhugsunarvert. Gert er ráð fyrir 69 íbúðum í fimm til sex hæða húsum.

Mynd: Yrki arkitektar – Akureyri.is

Óttast aurskriður

Fyrirhugaðar byggingar eiga að rísa í brekku sem er neðan við Sjúkrahúsið á Akureyri. Hildur segir að það sé í sjálfu sér varhugavert að fara í svo stórtækar framkvæmdir í þessum halla.

„Það er mjög mikilvægt áður en menn halda lengra að fara í ítarlegar jarðvegsjarðsóknir. Þarna erum við að tala um lóðir í miklum halla og við erum þarna með svæði sem er mjög þekkt fyrir aurskriður,“ segir Hildur.

„Mér skilst að SS byggir sé kominn með leyfi fyrir að fara í jarðvegsrannsóknir á svæðinu. En ég set líka spurningarmerki við að verktakinn haldi utan um og leiði þær rannsóknir. Ég átta mig á að sjálfsagt verður fenginn sérfræðingur í það en mér þætti eðlilegra að þarna myndi Akureyrarbær fara í jarðvegsrannsóknir og standa straum að kostnaði við þær rannsóknir sem eru mjög umfangsmiklar og dýrar,“ segir Hildur.

Íbúum svarað með þegjandi þögninni

Hildur segir athugasemdum íbúa svarað með þegjandi þögninni.

„Við höfum ítrekað komið á framfæri alls kyns athugasemdum eftir öllum þeim hugsanlegu formlegu leiðum sem til eru held ég innan bæjarapparatsins. Við höfum líka leitað til lögfræðings og skiluðum lögfræðiáliti í vor þar sem gerðar voru athugasemdir vegna afgreiðslu málsins en því var ekki einu sinni svarað. Þannig að maður er orðinn svolítið ráðalaus.“

Heimild: Ruv.is