Home Fréttir Í fréttum Tækifæri til að nýta flugvallarsvæðið á Siglufirði

Tækifæri til að nýta flugvallarsvæðið á Siglufirði

98
0
Mynd:Ingvar Erlingsson - RÚV
Fjallabyggð auglýsir eftir hugmyndum um nýtingu flugvallarsvæðisins á Siglufirði. Bæjarstjóri segir að þar geti verið tækifæri fyrir starfsemi tengda ferðamennsku.

Flugvöllurinn á Siglufirði hefur þjónað litlu hlutverki síðustu ár og er nú einungis skráður sem lendingarflugvöllur og mest nýttur af áhugaflugmönnum.

<>

Bæjarstjóri Fjallabyggðar, Elías Pétursson, hefur nú fyrir hönd sveitarfélagsins auglýst eftir samstarfsaðilum til að þróa hugmyndir um nýtingu flugvallarsvæðisins.

„Við viljum nýta það, við viljum nýta byggingarnar sem eru þarna. Og þá nýta þær undir einhverja atvinnustarfsemi sem eflir samfélagið í Fjallabyggð.“

Starfsemi og áfram hægt að lenda flugvélum

Það er mat Elíasar að ekki sé endilega hlutverk sveitarfélags að vera í forsvari fyrir þróunina. Hins vegar sé ekki ólíklegt að sveitarfélagið komi að með einhverjum hætti. Flugvöllurinn sem slíkur yrði að öllum líkindum áfram í eigu Fjallabyggðar.

„Í grunninn snýr þetta að fasteignunum sem eru við flugvöllinn, gömlu flugstöðinni og vélaskemmunni og einhverju landsvæði þar í kring.

Það væri gaman að það yrði einhver starfsemi sem tengdist þá þannig að það væru að lenda einhverjar flugvélar öðru hvoru.“

Siglufjörður hefur byggst mikið upp sem ferðamannastaður og finnst Elíasi að starfsemi tengd ferðamennsku gæti hentað svæðinu.

„Það er mikil ferðaþjónusta í Fjallabyggð þannig að það eru mikil tækifæri í ýmsu þar sem hægt væri að nýta þessi hús. Það held ég,“ segir Elías Pétursson bæjarstjóri í Fjallabyggð.

Heinild: Ruv.is