Davíð Torfi Ólafsson segir frá uppbyggingaráformum á Blómavalsreit sem meðal annars fela í sér stækkun Grand hótels.
Þrátt fyrir höggið sem faraldurinn hafði í för með sér huga Íslandshótel að frekari vexti, að sögn Davíðs Torfa Ólafssonar, framkvæmdastjóra keðjunnar, en rætt er við hann í bókinni 300 stærstu.
Davíð segir að unnið sé að uppbyggingu Hótel Reykjavík Sögu við Lækjargötu sem opnar næsta vor, auk þess sem hugað er að uppbyggingu á Blómavalsreitnum við Grand hótel.
„Það er alltaf skemmtilegt og mikil áskorun að opna nýtt hótel en það er sérstaklega skemmtilegt núna vegna þess að hótelið við Lækjargötu opnar á 30 ára afmæli félagsins.
Við erum líka að undirbúa umfangsmikla uppbyggingu á Blómavalsreitnum þar sem hótelið verður stækkað auk þess sem 109 íbúðir munu rísa á reitnum, alls um 40 þúsund fermetrar á fjórum til fimm árum,” segir Davíð.
Tæplega 150 herbergi bætast við hótelið við stækkunina ásamt ráðstefnusölum og gerir Davíð ráð fyrir að fjárfestingin í hótelinu nemi um eða yfir 8 milljörðum króna.
„Eftir stækkunina verður Grandhótel orðið 460 til 470 herbergja og þar með langstærsta hótel landsins og með mikla ráðstefnugetu.
Við erum að bæta við stórum ráðstefnusal, í svipaðri stærð og Silfurberg í Hörpu, ásamt nokkrum minni, þannig að við erum ekki síður að efla ráðstefnuþáttinn en gistinguna,” segir Davíð spenntur fyrir framhaldinu og ljóst að Íslandshótel eru stórhuga til framtíðar.
„Við erum alltaf með augun opin fyrir skemmtilegum staðsetningum vítt og breitt um landið, þannig að það er bjart fram undan og tækifærin leynast víða.”
Heimild: Vb.is