Framkvæmdir við fjölnota íþróttahúsið í Vetrarmýri ganga vel og þessa dagana er verið að leggja lokahönd á niðurlögn gervigrass innandyra. Fulltrúar í bæjarráði Garðabæjar fóru nýverið í skoðunarferð um húsið til að sjá hvernig hvernig framkvæmdir ganga.

Frágangur innanhúss er langt kominn, verið er að vinna samhliða í lokafrágangi flestra verkþátta. Vinna við gerð bílastæða er í fullum gangi og stefnir allt í að hægt verði að malbika í lok þessarar viku.

Frágangur utanhúss er lokið fyrir utan timburklæðningu við inngang sem unnin er samhliða frágangi á lóð. Uppsetning áhorfendabekkja fer fram í byrjun janúar á næsta ári. Stefnt er að því að Garðabær taki við húsinu í lok desember en lokið verður við samræmingu og virkni kerfa í janúar 2022.

Fjölnota íþróttahúsið verður með rými fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð og klifurvegg innanhúss auk upphitunaraðstöðu ásamt tilheyrandi stoðrýmum og verður mikil lyftistöng fyrir íþrótta- og heilsueflandi starfsemi í bænum.
Heimild: Gardabær.is