Home Fréttir Í fréttum Hafnarstækkun að hefjast í Þorlákshöfn

Hafnarstækkun að hefjast í Þorlákshöfn

200
0
Akranes í höfn í Þorlákshöfn. Mynd/Elliði Vignisson

Vöruflutningaferjan M/V Akranes lét í þriðja sinn úr höfn í Þorlákshöfn í vikunni en Smyril Line bætti skipinu inn í áætlunarsiglingar sínar til og frá Þorlákshöfn í síðasta mánuði. Smyril Line þjónustar Ísland nú með fjórum skipum, þ.e. Akranesi, Mykinesi og Mistral frá Þorlákshöfn og Norrænu sem siglir til Seyðisfjarðar.

<>

Hjörtur Jónsson hafnarstjóri segir umsvif hafnarinnar í Þorlákshöfn hafa stóraukist á síðustu misserum og árum. Akranes siglir á miðvikudagskvöldum til Rotterdam með viðkomu í Færeyjum.

Fiskútflytjendur á Íslandi og Færeyjum hafa nýtt sér þessa nýjung til að þjóna Evrópumarkaði. Mikines siglir einnig til Þorlákshafnar frá Rotterdam með viðkomu í Færeyjum á leið sinni hingað.

Mistral siglir frá Þorlákshöfn til Hirtshals á Jótlandi á mánudögum og kemur við í Færeyjum á báðum leggjunum. Talsverður útflutningur er einnig á fiski frá Íslandi til Hirtshals.

Hjörtur segir að með tilkomu Akraness hafi orðið enn frekari aukning í útflutningi frá Þorlákshöfn.

„Þetta er mest fiskútflutningur alls staðar af að landinu, lax að austan og vestan og mikið flakaður, ferskur fiskur sem þolir ekki mikla bið. Þarna spilar inn í aukið afhendingaröryggi á ferska fisknum sem er skiptir gríðarlega miklu máli.”

Auk þess hafa landanir á bolfiski aukist verulega í Þorlákshöfn á síðustu árum og þar með tekjum hafnarinnar. 2013 var landað um 10.000 tonnum af bolfiski en á þessu ári er þetta komið upp í tæp 20.000 tonn.

Auk þess hafa vöruflutningar um það bil fimmfaldast á þessum tíma. Heildartekjur hafnarinnar fyrir árið 2013  voru rúmlega 100 milljónir króna og hagnaður af starfseminni hafnarinnar litlar. Hreinn hagnaður hafnarinnar á þessu ári verða um 140 milljónir króna.

Grjót frá landeldinu

Sveitarfélagið Ölfus stendur einnig í stórræðum þessa dagana því framkvæmdir við stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn eru að hefjast. Aðalverktakinn er Suðurverk ehf. og hefst bygging Suðurvarargarðs nú fyrir jól.

Honum verður breytt og hann lengdur. Efnið í honum verður endurnýtt og viðbótargrjót kemur um skamman veg þaðan sem verið að brjóta land undir nýja landeldisstöð fyrirtækisins Landeldis.

Hjörtur segir að tímasetningar við stækkun hafnarinnar og framkvæmdirnar við landeldisstöðina fari einstaklega vel saman. Eftir stækkun hafnarinnar geta athafnað sig þar mun stærri skip en núna, eða 180-200 metrar að lengd.

Líklegt er að heildarkostnaðurinn verði eitthvað á fimmta milljarð króna. Um 60% fjármögnunarinnar kemur frá hinu opinbera í vel flestum verkþáttum. Hjörtur segir að við blasi eftir þessar framkvæmdir að mikil vöntun verði á fleirri viðleguköntum.

Heimild: Fiskifrettir.is