Hin sérstæða áttstrenda Silfrastaðakirkja stendur nú á bílaplani á Sauðárkróki þar sem unnið er að viðgerðum. Smiður sem vinnur að endurbótunum segir það sérstakt að fá hús flutt að trésmíðaverkstæðinu.
Kirkjan var flutt í heilu lagi
Það verður ekki messað á Silfrastöðum allavega næstu 2 árin en kirkjan var hífð af grjóthleðslunni á Silfrastöðum í byrjun október þaðan sem hún var flutt til viðgerðar.
Kirkjan sem er frá 1896 og friðuð var flutt í heilu lagi um 50 kílómetra leið til Sauðárkróks. Húsfriðunarsjóður veitti hæsta mögulega styrk til endurbóta sem nægir þó einungis fyrir um tíunda hluta viðgerðanna.
Áætlað er að þær kosti um 50 milljónir. Þar sem enn vantar töluvert fjármagn fyrir framkvæmdunum mun verkið taka lengri tíma en annars þyrfti.
Silfrastaðakirkja stendur nú á bílaplani við trésmíðaverkstæðið Ýr á Sauðarkróki. Það er óhætt að segja að hún stingi þar örlítið í stúf.
Nýtt fyrir smiðina að fá hús flutt til sín
Smiðirnir sem vinna verkið eru ekki óvanir slíkum verkefnum og eru með aðra gamla kirkju í uppgerð í sveitarfélaginu.
„Þetta er nú kannski svolítið nýtt að vera með kirkjuna hérna á planinu,“ segir Gunnar Helgi Helgason smiður.
Þið fáið ekki oft húsin til ykkar? „Nei það er ekki mjög algengt.“
Illa löskuð eftir leka
Það verður allt nýtt úr kirkjunni sem hægt er eins og reglur gera ráð fyrir í húsfriðunarreglum. Gömlum verkháttum er fylgt í hvívetna þannig að kirkjan haldi sínu upphaflega útliti. Turn hennar var þó svo illa farinn að nýr verður smíðaður.
„Við byrjuðum að taka úr henni gólfið til að fara að vinna í fótstykkjunum sem eru ansi löskuð eftir leka til margra ára. Hún er ansi illa farin á köflum en samt ekki eins illa farin og við héldum,“ segir Gunnar Helgi.
Til að verja kirkjuna fyrir veðrum og vindum á meðan unnið er að henni hefur skjólveggjum verið komið fyrir í kringum hana.
Heldurðu að kirkjan verði eitthvað nýtt á meðan hún er hérna á Sauðárkróki til helgihalds? „Það er aldrei að vita nema við tökum að okkur stuttar athafnir,“ segir Gunnar Helgi kankvís.
Heimild: Ruv.is