Home Fréttir Í fréttum Hafnargarðsmálið leyst: Verður fjarlægður og settur aftur upp

Hafnargarðsmálið leyst: Verður fjarlægður og settur aftur upp

66
0

Minjastofnun og Landstólpi hafa komist að samkomulagi um hvernig eigi að standa að verndun hafnargarðsins sem staðið hefur styr um undanfarna mánuði. Garðurinn verður fjarlægður og settur í geymslu áður en að honum verður komið fyrir á nýjan leik þannig að hann verði sýnilegur almenningi.

<>

Þetta staðfestir Gísli Steinar Gíslason, forstjóri Landstólpa, í samtali við Vísi. Að sögn Gísla gerir samkomulagið ráð fyrir því að hafnargarðurinn verði hluti af þeim byggingum sem Landstólpi mun reisa á Austurbakkanum við Reykjavíkurhöfn.

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig þetta verður útfært en Minjastofnun og Landstólpi hafa samið um grófa friðlýsingu sem verður útfærð nánar í samvinnu síðar.

„Þeir verða sýnilegir úr bílakjallara og göngugötum sem verða þarna á milli húsa. Markmiðið er að þeir verði aðgengilegir þannig að almenningur geti bæði virt hann fyrir sér og labbað í kringum hann,“ segir Gísli.

Garðurinn fjarlægður og geymdur á svæði Faxaflóahafna
Athygli vekur að samkvæmt samkomulaginu verða garðarnir fjarlægðir af svæðinu. Munu þeir verða geymdir á svæði Faxaflóahafna áður en að þeim verður komið fyrir aftur.

Gísli hefur ekki áhyggjur af því að þetta muni valda röskun á hafnargarðinum. Fornleifafræðingar og hleðslusérfræðingar muni hafa yfirumsjón með fjarlægingu garðsins og uppsetningu þegar að því kemur.

„Hver steinn verður merktur og öllu verður raðað upp á nýjan leik. Þetta er í raun besta lausnin fyrir alla aðila. Án þess að fjarlægja garðinn hefði ekki verið neitt aðgengi að hafnargarðinum, verndargildið verður því meira.“

Gísli er ánægður með að lausn hafi fengist í málið en viðræður hafa staðið yfir í nokkrar vikur, allt frá því að forsætisráðuneytið boðaði til sáttafundar þann 27. október sl. en ekki liggur þó fyrir hvar kostnaður við fjarlægingu hafnargarðsins muni falla.

„Við höfum átt í mjög góðu samstarfi við Minjastofnum og þetta hefur allt gengið mjög vel frá því að báðir aðilar fóru að horfa lausnamiðað á hvernig best væri að gera þetta,“ segir Gísli.

„Við eigum eftir að útfæra kostnaðarhlutann en auðvitað var þetta friðlýst af ríkinu þannig að kostnaðurinn mun væntanlega lenda þar. Þessi lausn gerir það þó að verkum að kostnaðurinn er mun minni en ef garðurinn hefði ekki verið fjarlægður.“

Heimild: Vísir.is