Home Fréttir Í fréttum Ekkert fjármagn er eyrnamerkt þjóðarleikvöngum

Ekkert fjármagn er eyrnamerkt þjóðarleikvöngum

54
0
Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ekkert fjármagn er merkt til byggingar þjóðarleikvangs í íþróttum, hvorki úti né inni, í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í dag.

<>

Formaður Körfuknattleikssambandsins og framkvæmdastjóri Handknattleikssambandsins leyfa sér þó að vera bjartsýnir á að það breytist í umræðum um frumvarpið.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ var í Kaupmannahöfn í dag þegar hann gaf sig á tal við fréttastofu. Hann var á leiðinni til landsins frá Sankti Pétursborg, þar sem karlalandsliðið í körfubolta lék gegn Rússum í undankeppni HM í gær.

Liðið millilenti í Helsinki á leiðinni til Kaupmannahafnar, þaðan sem flogið verður heim. Þessi ferðasaga er tíunduð hér, því leikurinn átti að vera leikinn á heimavelli Íslands, Laugardalshöll, en hún stenst ekki lengur kröfur alþjóðasambanda.

Verður reynt að koma höll í frumvarpið
Hannes hafði því ekki gefið sér tíma til þess að líta yfir frumvarpið, en sagðist hafa heyrt af því að ekkert tengt þjóðarhöll væri í frumvarpinu.

„Það er akkúrat það sem ég er svekktur með,“ sagði hann við fréttastofu í dag. Það skipti máli að koma því inn í frumvarpið, og það verði reynt á meðan frumvarpið verður til umræðu.

Hannes kveðst hafa trú á nýjum ráðherra íþróttamála, en samkvæmt stjórnarráðinu verður það á könnu Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra.

Hann reiknar með að fara á fund með ráðherra síðar í þessari viku eða í þeirri næstu. „Ég leyfi mér að vera bjartsýnn fram yfir fund með ráðherra,“ segir Hannes.

Hafa trú á nýjum ráðherra
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, segir vonbrigði að ekki sé lagt fjármagn í keppnishöll í frumvarpinu. „Við bindum hins vegar miklar vonir við nýjan íþróttamálaráðherra.

Við áttum fínt samstarf við hann meðan hann var félagsmálaráðherra í kringum COVID-faraldurinn,“ sagði Róbert.

Hann ætlar einnig að reyna að fá fund með ráðherra í næstu viku. Þetta hafi verið eitt af loforðum Framsóknarflokksins fyrir kosningar og hann vonist til að þeir standi við stóru orðin. Verkefnið sé brýnt og þurfi að ráðast í það mjög fljótlega.

Formaður HSÍ, Guðmundur B. Ólafsson, var formaður vinnuhóps sem stofnaður var af Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra. KKÍ átti einnig fulltrúa í hópnum ásamt menntamálaráðuneytinu og borgarstjórn.

Fjármagn yfirleitt fyrsta skrefið
Fulltrúi Reykjavíkurborgar í vinnuhópnum segir viðræður um nýja þjóðarhöll nánast ekkert komnar. Það hafi verið stofnað félag í kringum nýjan þjóðarleikvang með Knattspyrnusambandinu, en lítið hafi frést af því síðan.

Ekkert félag hefur verið stofnað í kringum innileikvang. Það kom honum á óvart að ekkert væri inni í fjárlagafrumvarpinu um nýjan innileikvang, því það sé yfirleitt fyrsta skrefið í að koma af stað slíkum verkefnum.

Von er á svörum frá nýjum ráðherra íþróttamála um gang þessa máls. Í viðtali við Vísi í gær sagði hann stór verkefni fram undan, ekki síst varðandi þjóðarleikvanga.

Hann segir það eitt af þeim verkefnum sem rammað er inn í stjórnarsáttmála. Í sáttmálanum segir orðrétt: „Unnið verður áfram að uppbyggingu þjóðarhallar inniíþrótta og þjóðarleikvanga.“

Það virðist því ekkert fast í hendi með það hvenær hefja eigi mannvirkjagerðina. Ásmundur Einar kvað þó nokkuð fast að orði á Vísi og sagði það ekki geta gengið til lengdar að íslenska landsliðið geti ekki spilað heimaleiki sína hér á landi.

Hvar nýr þjóðarleikvangur verður er einnig spurning sem enn er ósvarað. Það eru komnar tillögur um uppbyggingu í Laugardalnum, þar sem þeir eru fyrir.

Hannes hjá KKÍ segir að fyrir sitt leyti sé honum nokkuð sama um í hvaða sveitarfélagi ný þjóðarhöll rísi, svo framarlega sem viðkomandi sveitarfélag sé tilbúið í verkefnið.

Heimild: Ruv.is