Home Fréttir Í fréttum Erlend verkfræðistofa gerir tilboð í EFLU

Erlend verkfræðistofa gerir tilboð í EFLU

157
0
EFLA varð til í október 2008 við sameiningu fjögurra verkfræðistofa. LJÓSMYND/EFLA

Erlend verkfræðistofa hefur sýnt áhuga á að fjárfesta í íslensku verkfræðistofunni EFLU. Þetta staðfesti Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, í samtali við Innherja.

<>

„Erlendur aðili, sem er í sama geira og EFLA, hefur sýnt áhuga á að fjárfesta í EFLU,” sagði Sæmundur en hann kvaðst ekki geta greint nánar frá tilboðinu eða því hver tilboðsgjafinn væri.

Hluthafar EFLU, sem voru 124 í lok síðasta árs og hver með innan við 5 prósenta hlut, hafa nú þegar gefið grænt ljós á að tilboðið verði skoðað nánar.

EFLA varð til í október 2008 við sameiningu fjögurra verkfræðistofa. Síðan þá hefur fyrirtækið tvöfaldast að stærð, bæði hvað varðar fjölda starfsmanna, sem eru í kringum 400 talsins, og umfang rekstrar.

Meginstarfsemin er á Íslandi en auk þess starfrækir EFLA dóttur- og hlutdeildarfélög í Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Skotlandi og Tyrklandi.

Tekjur verkfræðistofunnar á síðasta ári námu 6,7 milljörðum króna samanborið við tæplega 7,1 milljarð árið 2019.

Hins vegar jókst hagnaður úr 205 milljónum upp í 275 milljónir á milli ára.

Heimild: Visir.is / Innherji