Skipulagsráð Kópavogs samþykkti þann 18. október sl. að kynna vinnslutillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir nyrsta hluta Kársnessins, þ.e. svæði fyrir ofan Kópavogshöfn.
Mikil uppbygging íbúðabyggðar hefur staðið yfir á Kársnesi undanfarið.
Í vinnslutillögunni, sem unnin er af Atelier arkitektum, er gert ráð fyrir að núverandi atvinnuhúsnæði á lóðunum víki og íbúðarhús rísi í þess stað. Skipulagssvæðið afmarkast af Þinghólsbraut og lóðamörkum Þinghólsbrautar 73 og 75 í austri, fyrirhugaðri nýrri vegtengingu milli Borgarholtsbrautar og Bakkabrautar í norðri og fyrirhugaðs nýs hafnarkants til vesturs og suðurs.
Gert er ráð fyrir að heildarfjöldi íbúða á reitnum verði að hámarki 160, á 2-5 hæðum þar sem 5. hæðin verður inndregin. Minnstu íbúðirnar verða stúdíóíbúðir og þær stærstu fimm herbergja.
Þá er gert ráð fyrir 0,75-1 bílastæði pr. íbúð og að u.þ.b. 90% þeirra verði í innbyggðum og niðurgröfnum bílageymslum. Fyrirhugað er að heildarbyggingarmagn á svæðinu verði 26.675 fermetrar ofan- og neðanjarðar.
Byggðin mun stallast mikið í hæðum vegna landhalla frá Þingholtsbraut að ströndinni. Því muni myndast skjólgóðir og sólríkir inngarðar sem opnist til suðurs.
Byggingar í slæmu ástandi
Fram kemur í greinargerð með skipulagstillögunni að á reitnum standi í dag iðnaðarbyggingar, sem reistar voru á árunum 1950-1988, alls tæpir fimm þúsund fermetrar.
Þær séu margar í slæmu ástandi og falli ekki vel að landi eða við núverandi íbúðabyggð.
Fyrirtækið Íslenskt sjávarfang (Bakkabraut 2) er með starfsemi í stærstu byggingunum og einnig er Hjálparsveit skáta í Kópavogi (Bakkabraut 4) með aðstöðu við höfnina.
Áformað er að hjálparsveitin verði áfram með bátaskýli við höfnina, að hámarki 240 fm.
Fram kemur í greinargerðinni að vinnslutillagan sé í samræmi við stefnu um þéttingu byggðar og uppbýggingu íbúða á Kársnesinu samkvæmt aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 og sé í samræmi við þá uppbyggingu sem þegar hafi átt sér stað norðar á svæðinu. Með tillögunni fjölgi íbúðum á svæðinu sem stuðli að betri nýtingu innviða.
Staðsetningin sé útjaðri uppbyggingasvæðisins og tengist vel helstu hjóla- og gönguleiðum auk þess sem almenningssamgöngur verði mjög góðar með tilkomu borgarlínu og nýrrar brúar yfir Fossvoginn.
Kynningarfundi streymt
Kynning á tillögunni hófst þann 5. nóvember á www.kopavogur.is og skal ábendingum og athugasemdum skila skriflega til skipulagsdeildar eigi síðar en kl. 13:00 föstudaginn 21. janúar 2022.
Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillögurnar. Opnu húsi/kynningarfundi sem átti að vera 18. nóvember var frestað vegna heimsfaraldursins.
Rafrænn kynningarfundur verður haldinn 30. nóvember. Fundurinn hefst kl. 17 og er streymt frá vefsíðu Kópavogsbæjar.
Heimild: Mbl.is