Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hafnar í Laugarvatnsskógi

Framkvæmdir hafnar í Laugarvatnsskógi

141
0
Mynd: Hreinn Óskarsson

Framkvæmdir eru nú hafnar á lóð nýs áningarstaðar og þjónustuhúss í Laugarvatnsskógi. Skógur hefur verið ruddur af byggingarstaðnum og jarðvinna verið boðin út. Stefnt er að því að reisa burðarvirki hússins næsta vor og að þessi nýi áningarstaður verði tilbúinn um haustið.

<>

Húsið verður eingöngu smíðað úr íslenskum viði og hæstu trén sem felld hafa verið til að afla viðar í burðarvirkið voru 22 metra há.

Tíu milljónir króna voru veittar til verkefnisins á þessu ári úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Húsið sem reist verður er byggt á verðlaunatillögu úr samkeppni um þjónustuhús fyrir þjóðskóga landsins sem haldin var 2013. Áætlað er að það kosti um 30 milljónir króna.

Í bygginguna þarf að nota stæðilega ósagaða stofna sem þurfa að vera 8-10 metra langir og ekki minna en 10 sm sverir í grennri endann. Trjábolir í burðarviðina voru felldir fyrir nokkru í Haukadal og barkflettir. Um verkið sáu þeir Einar Óskarsson og Níels Magnússon, starfsmenn Skógræktar ríkisins í Haukadal. Voru hæstu trén 22 metra há.

Í klæðningu hússins verður notað sitkagreni úr Þjórsárdal og þess efnis hefur þegar verið aflað einnig og viðurinn unninn í klæðninguna í nýju sögunarmyllunni þar. Um það sáu Jóhannes H. Sigurðsson og starfsmenn hans hjá starfstöð Skógræktarinnar í Þjórsárdal.

Nýlega var skógur ruddur á byggingarstaðnum í Laugarvatnsskógi og jarðvinna hófst á mánudag. Suðurtak á Brjánsstöðum í Grímnesi fékk verkið að afloknu útboði. Teikningar og útboðsgögn eru tilbúin og lýkur útboði á burðarvirki, lögnum og rafkerfi níunda nóvember. Um lokahönnun hússins sáu Arkís arkitektar og Verkfræðistofa Þráinn og Benedikt ehf. en aðalarkitekt er Birgir Teitsson. Ívar Örn Þrastarson er byggingarstjóri.

Heimild: Skógur.is