Gler- og speglafyrirtækið Megna, sem áður hét Glerborg, er nú í greiðslustöðvun sem fyrirtækið fékk 15. október sl. og gildir fram í febrúar á næsta ári.
Rúnar Árnason framkvæmdastjóri félagsins segir í samtali við Morgunblaðið að ástæðuna megi að stórum hluta rekja til faraldursins.
„Tap á rekstrinum er margþætt. Covid-19 hægði á öllu í langan tíma eins og flestum er ljóst. Covid-19 hægði og/eða stoppaði framleiðslu okkar, sama gilti um flutning til landsins. Miklar tafir kosta mikla peninga.
Miklar og óvæntar erlendar kostnaðarverðshækkanir eru ein afleiðingin til viðbótar. Vogun tapar, launahækkanirnar miklu höfðu neikvæð áhrif og munu gera til lengri tíma.
Allt þetta tekur í,“ segir Rúnar og bætir við að ekki sé útséð með Covid19 enn þá.
Hann segir að stjórn félagsins hafi talið ábyrgð sína felast í að sækja um greiðslustöðvun áður en verr færi.
„Við erum að klára sendingar til okkar viðskiptavina. Við seldum uppsetningarsviðið í þeim tilgangi að standa við loforðin. Einnig eru í gangi viðræður um sölu á öðrum sviðum fyrirtækisins.“
Rúnar segir að samningar hafi náðst við birgja um að klára virkar pantanir.
„Aðalatriðið er að lágmarka skaða, koma í veg fyrir tjón hjá viðskiptavinum. Það hafa orðið einhverjar tafir á afhendingu, en það munu allir fá vörur sínar afhentar.“
Rúnar segir að auk tafa og verðhækkana erlendis hafi það valdið vandræðum í rekstrinum þegar starfsfólk þurfti að vinna heima á löngum tímabilum í faraldrinum. „Eins og margir aðrir fengum við ekki heldur fyrirgreiðslu hjá þeim sem leigja okkur húsnæði.
Þá segir Rúnar að lokum að fyrirtækið hafi nýtt sér hlutabótaleiðina, en ekki uppfyllt skilyrði fyrir frekari aðstoð frá stjórnvöldum og bönkum.
Heimild: Mbl.is