Landsbankinn mun einungis nýta sextíu prósent af nýbyggingu sinni í miðborginni en selja eða leigja hinn hlutann. Byrjað verður að klæða bygginguna í næstu viku og vonast er til að flutt verði inn fyrir lok næsta árs.
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans leiðir okkur stolt um nýbyggingu bankans. Við byrjum í efri kjallara hússins þar sem meðal annars verða bílastæði sem tengjast allt frá bílakjallara Hörpu í gegnum bílakjallara undir Hafnartorgi allt að Ingólfstorgi.
Það sér loks fyrir endan á miklum byggingarframkvæmdum á Hörpu reitnum því nýi Landsbankinn er að verða tilbúinn. Það styttist í að það verði farið að klæða hann allan að utan með blágrýti eða stuðlabergi.
Grjótið kemur frá námu í Hrunamannahreppi og töluvert magn þarf til að þekja alla bygginguna.
„Þetta verður mjög fallegt. Tónar við Hörpu og mjög íslenskt og skemmtilegt að horfa á hér á þessum stað við Arnarhólinn,“ segir Lilja Björk þar sem hún sýnir okkur vegg sem búið er að klæða með grjótinu í bílakjallara.
Nú fjórum árum eftir að byrjað var að undirbúa bygginguna vonar Lilja að hægt verði að flytja inn í húsið fyrir lok næsta árs. Bankinn verði með starfsemi í tveimur af fjórum hlutum hússins.
„Við höfum haldið okkur alveg við upphaflegar forsendur varðandi nýtingu. Þannig að við erum að fara í um sextíu prósent af húsinu.
Sem þýðir að við erum þá að fara úr um tuttugu þúsund fermetrum þegar við byrjuðum, erum aðeins búin að vera að minnka við okkur, niður í tíu þúsund fermetra.
Húsið allt er sextán þúsund og fimm hundruð fermetrar þannig að hinir sex þúsund og fimm hundruð verða leigðir út eða seldir,“ segir Lilja Björk.
Byrjað verði að ræða við mögulega kaupendur eða leigutaka í byrjun næsta árs. Markmiðið sé að starfsemi í húsinu skapi líf á þessum mikilvæga stað í miðborginni.
„Miðbærinn þarf að vera fullur af lífi. Við erum búin að vera að hugsa okkar hluta, skrifstofuhlutann. Þannig að á jarðhæðinni verður líf.
Við drögum okkar starfsfólk niður í mötuneytið í hádeginu. Þar verður fundaraðstaða og aðgengi fyrir fólk að koma til að fá sinnt erindum hjá Landsbankanum.
Aðgengi að sjálfsafgreiðslu og svo er auðvitað verslunarhúsnæði líka meðfram á fyrstu hæðinni,“ segir bankastjórinn.
Við flutninginn spari Landsbankinn leigu á um ellefu stöðum í miðborginni og selji gömlu aðalbygginguna. Nýja byggingin verði umhverfisvæn varðandi orkunýtingu og fleira.
„Við hvetjum til vistvænna samgangna og sjálfbærni. Þá erum við til dæmis með þennan hjólaramp hér við hliðina.
Það er fyrir hjólandi og gangandi umferð inn í bygginguna og góð aðstaða verður fyrir reiðhjól í húsinu. Þetta tengist hjólreiðastígum Reykjavíkurborgar og verður frábært fyrir starfsfólkið okkar,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir.
Heimild: Visir.is