Home Fréttir Í fréttum Dökkar hliðar HM í Katar – „Vil ekki vakna á morgnana“

Dökkar hliðar HM í Katar – „Vil ekki vakna á morgnana“

113
0
GettyImages

Aðeins ár er til stefnu þar til flautað verður til leiks á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fer fram í Katar á næsta ári.

<>

Ný skýrsla frá mannréttindasamtökunum Amnesty International, sýnir fram á að langt er í land þar til aðstæður farandverkamanna verða boðlegar í landinu.

Tíminn er að renna út fyrir stjórnvöld í Katar til þess að standa við loforð sín um að afnema Kafala kerfið og koma á laggirnar betri vernd fyrir farandverkamenn,” segir í skýrslu Amnesty International sem ber nafnið Reality Check 2021 og fjallar um ástandið í Katar í aðdraganda heimsmeistaramótsins.

Kafala kerfið svokallaða sem fjallað er um í skýrslunni er kerfi sem brýtur á réttindum verkamanna.

Í ágúst á síðasta ári voru tvö lagafrumvörp samþykkt í Katar sem áttu að binda enda á kvaðir sem hömluðu farandverkafólki að yfirgefa landið og að skipta um starfsvettvang án leyfi þess að þurfa leyfi frá vinnuveitanda.

Lagafrumvörpunum var ekki fylgt nægilega vel eftir og ástandið er í dag óbreytt. Eins og staðan er núna er farandverkafólk bundið ákvarðanatöku vinnuveitanda sinna og í skýrslu Amnesty International er greint frá því að enn þann dag í dag standi verkafólkið frammi fyrir miklum hindrunum ætli það sér að skipta um starfsvettvang.

GettyImages

Í skýrslunni stíga farandverkamenn fram og greina frá sínum aðstæðum. Einn af þeim er maður sem hefur unnið í Katar að undirbúningi heimsmeistaramótsins í tæp fimm ár: ,,Þau (stjórnvöld í Katar) lofuðu breytingum á pappír en síðan gerðist ekkert. Lítið hefur breyst.”

Umbætur hafa verið gerðar

Það er einnig dregið fram í skýrslu Amnesty að frá árinu 2017 hafa verið gerðar umbætur á réttindum farandverkafólks í landinu. Til að mynda voru sett á lög um vinnutíma, settir voru á vinnudómstólar til að auðvelda aðgang að dómstólum og sjóðir til þess að standa straum af greiðslum ógreiddra launa svo eitthvað sé nefnt.

En eftir stendur þó að aðstæður farandverkafólks eru ekki nægilega góðar í Katar að mati Amnesty. Slæm ákvæði Kafala kerfisins eru enn virk og gefa vinnuveitendum meðal annars vald til þess að koma í veg fyrir að verkafólk skipti um vinnu.

GettyImages

Vill ekki vakna á morgnanna

Annað dæmi sem dregið er fram í skýrslunni frá Amnesty kemur frá konu sem vinnur að undirbúningi heimsmeistaramótsins.

Hún lýsir hótunum frá yfirmönnum sínum er hún neitaði að skrifa undir nýjan samning. Henni var sagt að hún þyrfti að greiða því sem nemur rúmum 219 þúsund íslenskra króna, rúmum fimmföldum mánaðarlaunum sínum til þess að fá leyfi til að skipta um vinnu eða vera send aftur til síns heimalands.

,,Þetta hefur haft slæm áhrif á mig og fjölskyldu mína. Ég er fyrirvinnan í fjölskyldu minni og það hefur verið mjög erfitt að ráða við þessar aðstæður. Stundum vil ég ekki vakna á morgnanna.”

Rannsaka ekki dauðsföll

Þúsundir farandverkamanna hafa látið lífið við störf sín undanfarin áratug í Katar.

Í heimildarmynd sem var frumsýnd fyrr á árinu er varpað ljósi á viljaleysi stjórnvalda í Katar til þess að rannsaka dauðsföllin þrátt fyrir sönnunargögn um bágar og beinlínis hættulegar vinnuaðstæður.

Í myndinni, sem ber nafnið In the Prime of their Lives, er varpað ljósi á það hvernig stjórnvöld í Katar gefa út dánarvottorð fyrir farandverkamenn með kerfisbundnum hætti án þess að rannsaka dánarorsökina.

Ástæður sem eru gefnar fyrir dauðsfalli í dánarvottorðum farandverkafólks eru oftar en ekki sagðar vera af náttúrulegum orsökum.

Það kemur í veg fyrir að fjölskyldur hins látna fái bætur eftir dauðsfallið. Margar af þessum fjölskyldum eiga mjög erfitt í kjölfarið þar sem aðal fyrirvinna heimilisins er horfin á braut.

Heimild; Frettabladid.is