Home Fréttir Í fréttum Stækka gagnaverið fyrir 6,6 milljarða

Stækka gagnaverið fyrir 6,6 milljarða

192
0
Gagnaver Verne Global á Ásbrú Mynd: Haraldur Guðjónsson

Nýr eigandi Verne Global mun fjármagna 50 milljóna dala stækkun á gagnaveri fyrirtækisins í Reykjanesbæ.

<>

Verne Global hyggst stækka gagnaver sitt í Reykjanesbæ fyrir 50 milljónir dala eða sem nemur 6,6 milljörðum króna.

Stækkunin á 16 hektara gagnaverinu á að bæta afkastagetu um 10 megavött, að því er kemur fram tilkynningu félagsins. Fjárfesting er fjármögnuð af D9, nýjum eigendum Verne Global.

Í byrjun september var tilkynnt um að Digital 9 Infrastructure (D9) hafi fest kaup á Verne Global fyrir 231 milljón punda, eða um 40,7 milljarða króna. Meðal aðila á söluhliðinni voru Stefnir og Novator Partners, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Fyrirtækið segir að stækkunin á gagnaverinu sé til þess fallin að mæta eftirspurn viðskiptavina en sífellt fleiri fyrirtæki sækjast nú eftir að lágmarka kolefnisspor stafrænna innviða fyrir orkufreka notkun.

Verne Global tilkynnti jafnframt um samstarf við Integra Mission Critical, sem býr til lausnir fyrir gagnaver, til að styðja við vinnslugetu á meðan framkvæmdir standa yfir.

„Við erum að sjá hvern geirann á eftir öðrum færa sig inn í stórvirk greiningarumhverfi og það er spennandi að skala upp gagnaverið aftur með nýjum og núverandi viðskiptavinum til að mæta þeirri þörf,“ er haft eftir Dominic Ward, forstjóra Verne Global.

„Það er líka frábært að taka fyrsta skrefið inn í framtíðina sem hluti af D9 Infrastructure vettvanginum og við bíðum öll spennt eftir því hvað framtíðin ber í skauti sér.

Heimild: VB.is