Home Fréttir Í fréttum Nýtt íþróttahús rís brátt á Jaðarsbökkum á Akranesi

Nýtt íþróttahús rís brátt á Jaðarsbökkum á Akranesi

700
0
Nýtt íþróttahús á Jaðarsbökkum.

Um þessar mundir eru að hefjast framkvæmdir við nýtt íþróttahús á Jaðarsbökkum á Akranesi en það verður stærsta framkvæmd Akraneskaupstaðar um árabil.

<>

Um er að ræða fjölnota íþróttahús og er það einn áfangi af mörgum í áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu.

Húsið samanstendur af fjölnota íþróttasal og hliðarbyggingu á tveimur hæðum fyrir ýmis fylgirými. Íþróttasalurinn er 50 metrar að lengd og 38,5 metrar á breidd að innanmáli, alls 1.925 fermetrar.

Í kjallara eru búningsherbergi fyrir íþróttasalinn, Akraneshöllina, Akranesvöll, æfingasvæðið og önnur útisvæði.

Húsið er ætlað fyrir iðkendur margskonar greina íþrótta, svo sem knattspyrnu, körfubolta, handbolta og blak, sem og fyrir nemendur Grundaskóla í skólaleikfimi.

Búningsherbergin eru fyrir alla iðkendur á svæðinu, jafnt innandyra sem utan. Einnig er gert ráð fyrir fjölbreyttum uppákomum sem geta farið fram í sal íþróttahússins, svo sem samkomur, tónleikar og svo framvegis.

Samtals er mannvirkið ríflega 5.300 fm og leggst annars vegar að norðurgafli Akraneshallarinnar og tengist sundlaugarbyggingu til vesturs hins vegar.

Húsið á eins og áður segir að geta þjónustað alla almenna íþróttaiðkun svo sem handbolta, körfubolta, blak og fleira með uppsettum áhorfendabekkjum ásamt því að vera leikfimihús fyrir Grundaskóla.

Salurinn getur skipts í fjóra hluta í kennslu og getur einnig tekið við uppsetningu fyrir veisluhald með uppröðun borða í öllum salnum. Hljóðvist og loftgæði taka mið af því besta sem þekkist í dag. Bruna- og öryggismál taka einnig mið af nýjustu kröfum.

700 áhorfendur í sal
Áætlað er að starfsmenn verði á vakt í húsinu og munu þeir hafa aðstöðu í kjallara við austurinngang hússins. Gert er ráð fyrir 15 búningsklefum í mismunandi stærðum með fullkominni sturtuaðstöðu auk þess sem þrír klefanna verða með kalda potta með sírennsli.

Þeir pottar verða ekki opnir öðrum en afmörkuðum hópi í afreksíþróttum. Tveir búningsklefar verða sérstaklega ætlaðir hreyfihömluðum. Í kjallara verður einnig styrktarsalur.

Aðalinngangur hússins verður á fyrstu hæð. Þar verða salerni sem þjóna áhorfendum, bæði þeim sem eru í aðalsal hússins og einnig fyrir útisvæði.

Í íþróttahúsinu verða íþróttavellir útbúnir þannig að þeir uppfylli allar kröfur til leikjahalds í efstu deildum, svo sem í körfubolta, handbolta og blaki. Íþróttagólf er parketgólf sem stenst kröfur viðeigandi sérsambanda.

Gert er ráð fyrir að 700 áhorfendur rúmist í áhorfendastúkum. Eins og áður sagði er gert ráð fyrir að íþróttasalurinn geti einnig verið útbúinn fyrir annars konar starfsemi eins og veisluhöld, sýningar og tónleika.

Við þess háttar uppröðun er gert ráð fyrir allt að 900 manns í salnum og hafa bruna- og burðarþolshönnuðir samþykkt þann fjölda.

Bygging íþróttahússins enn í útboðsfasa
Í þessum fyrsta áfanga verksins mun Vélaleiga Halldórs Sigurðssonar sjá um gröft fyrir mannvirkinu og breytingar á lögnum í jörðu ásamt því að girða af vinnusvæðið.

Við þá framkvæmd mun allt bílastæðið framan við inngang að sundlaug verða lokað almenningi. Einnig munu gönguleiðir að Íþróttamiðstöð og Akraneshöll verða afmarkaðar.

Bílastæðin austan núverandi íþróttahúss, „braggans,“ munu áfram verða opin ásamt því að svæðið norðan við braggann, í átt að Jaðarsbraut verða einnig nýtt.

Að sögn Sigurðar Páls Harðarsonar, sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Akraneskaupstaður er bygging íþróttahússins enn í útboðsfasa og er verið að vinna frekari útboðsgögn fyrir verkið.

„Stefnt er að því að vera með aðskilin útboð, annars vegar í ytri frágang og slíkt og síðan í innri frágang. Síðan munum við væntanlega fara í útboð varðandi lausan búnað.

Þá verður væntanlega farið í útboð vegna lóðafrágangs.“ Aðspurður um byggingarmáta hússins segir Sigurður Páll að hann verði að einhverju leyti valkvæður fyrir þann sem fær verkið en húsið verður steypt með burðarrömmum.

Heimild: Skesshorn.is