Home Fréttir Í fréttum Ráðherrar sammála um að mikill skortur á íbúðum sé alvarlegur vandi

Ráðherrar sammála um að mikill skortur á íbúðum sé alvarlegur vandi

84
0
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. Fréttablaðið/Ernir

Reykjavík þurfi að brjóta nýtt land en þétta líka áfram byggð. Opnun Mannvirkjaskrár til bóta.

<>

Fréttablaðið greindi frá því í gær að fasteignasalar á höfuðborgarsvæðinu hafi aldrei séð eins fáar íbúðir til sölu. Þær eru sjöfalt færri en um mitt ár í fyrra, hlaupa á örfáum hundruðum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, telur að íbúðaskorturinn sé eitt dæmi um að þörf sé á sameiningu málaflokka húsnæðismála undir einn hatt.

„Ja, klárlega skortir yfirsýn,” segir Sigurður Ingi. „Það skortir samtal milli skipulags og bygginga. Ein leið til þess gæti verið að koma yfirstjórn á einn stað.”

Frá opnun Mannvirkjaskrár í gær. Í skránni verður hægt að skoða fjölda íbúða í byggingu eftir byggingarstigi. Fréttablaðið/Ernir

Mannvirkjaskrá sem var opnuð í gær, rafrænn gagnagrunnur, er dæmi um mikilvæga úrbót, að sögn Sigurðar Inga. Í nýju gáttinni verði meðal annars hægt að fylgjast með einstökum eignum, sveitarfélögum, eftirliti og byggingartíma. Óheppilegt sé að einn málaflokkur, húsnæðismál, hafi dreifst á tvö til fjögur ráðuneyti.

„Þetta er vandamál og afleiðingarnar geta orðið alvarlegar eins og við sjáum núna í íbúðamálunum,” segir Sigurður Ingi. „En það má ekki gleyma að í kringum höfuðborgina er mikil uppbygging.”

Fasteignaverð þýtur upp á sama tíma og lítið er að hafa fyrir þá sem leita að húsnæði til kaups. Sigurður Ingi er ekki eini ráðherrann sem hefur áhyggjur af stöðunni.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var viðstaddur opnun Mannvirkjaskrár. „Sú uppbygging sem þarf að fara fram á suðvesturhorninu er gríðarleg,“ segir Ásmundur Einar.

Skortur á íbúðum hafi vegna verðhækkana og húsnæðiseklu aukið byggð í nálægum sveitarfélögum á suðvesturhorninu. Borgin þurfi að vinna að tveimur leiðum samtímis.

„Það er bæði hægt að þétta byggð og skipuleggja ný svæði,” segir Ásmundur Einar. „Önnur sveitarfélög í kringum Reykjavík hafa brotið land og það þarf líka að gera það í Reykjavík.“

Sigurður Hannesson hjá Samtökum iðnaðarins segir að hraða þurfi skipulagsmálum hjá sveitarfélögum, gefa út fleiri leyfi og koma fleiri verkefnum af stað.

„Auðvitað stendur það atvinnulífi fyrir þrifum ef allir hafa ekki þak yfir höfuðið,“ segir Sigurður.

Kjartan Már Kjartansson. Fréttablaðið/Ernir

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, segir að allt húsnæði seljist nú í Reykjanesbæ um leið og það komi á markað. Sama á við um mörg sveitarfélög víða um land þótt suðvesturhornið sé heitast.

Ein ástæða húsnæðiseklunnar er, að sögn Kjartans, sú að margir innflytjendur hafi áður búið í ósamþykktu og óviðunandi húsnæði. Nú séu þeir vonandi flestir komnir í betra skjól.

Kjartan segir það sína skoðun að sveitarfélögum beri skylda til að útvega þeim sem vilji búa innan þeirra nægt húsnæði.

Heimild: Frettabladid.is