Sementsverksmiðjan segir ákvörðun sína, um að bjóða Aalborg Portland bein sementsviðskipti, ekki brot á samkeppnislögum í tilkynningu til fjölmiðla í kvöld.
Þar er bent á að fyrirtækið hafi leitað leiðbeininga hjá Samkeppniseftirlitinu áður en ákvörðunin hafi verið tekið en Steinsteypan kvartaði yfir þessari ráðstöfun til eftirlitsins.
Sementsskortur innanlands og í Evrópu
Mikill sementsskortur er hér á landi sem og um alla Evrópu. Vegna þessa segist Sementsverksmiðjan hafa þurft að forgangsráða því sementi sem fyrirtækið hafi til umræða til þess að mæta samningsskuldbindingunum sínum:
„Sementsverksmiðjan vísar því algerlega á bug að forgangsröðun viðskipta til að mæta samningsbundnum skuldbindingum geti talist brot á samkeppnislögum.
Félagið taldi ennfremur að þær kröfur sem gerðar voru til þess í kvörtun Steinsteypunnar gætu hæglega jafngilt broti á 10. grein samkeppnislaga og væru því ekki færar“.
Seldi Steinsteypunni sement í sumar
Sementsverksmiðjan segist hafa selt Steinsteypunni sement í sumar ásamt fleirum sem þeir voru ekki í föstu samningssambandi við þegar vart varð skorts hjá „helsta keppnauti félagsins í sementssölu hér á landi“.
Fyrirtækið segist þó fullan skilning hafa á þeirri stöðu sem sé komin upp vegna sementsskorts í heiminum:
„Sementsverksmiðjan hefur sem fyrr segir gert ítrekaðar tilraunir til að tryggja meira magn sements til landsins og fagnar að sjálfsögðu nýjum viðskiptum þegar afhendingar komast í eðlilegt horf. Bindur verksmiðjan vonir við að með þessum hætti megi draga úr neikvæðum áhrifum sementsskorts hér á landi fyrir íslenskan byggingamarkað.“
Heimild: Mbl.is