Borgarráð hefur samþykkt að úthluta Bjargi íbúðafélagi fimm lóðum og byggingarrétti fyrir 60 íbúðir við Vindás-Brekknaás í Seláshverfi. Lóðirnar eru skammt fyrir ofan hesthúsabyggðina í Víðidal.
Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, segir að félagið sé að hefja undirbúning hönnunar á lóðunum og stefnt sé að því að framkvæmdir hefjist seinnipart næsta árs.
Veitur eiga eftir að hanna og koma fyrir stofnlögnum og einnig á borgin eftir að hanna og leggja vegi.
Bjarg íbúðafélag er sjálfseignarstofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.
Í byggingu eru 324 íbúðir
Nú eru 522 íbúðir fullbúnar og komnar í leigu á vegum Bjargs. Í byggingu eru 324 íbúðir og aðrar 284 eru í undirbúningi. Alls eru þetta 1.130 íbúðir.
Björn segir að 14% íbúða Bjargs séu utan höfuðborgarsvæðisins og að félagið eigi í viðræðum við fleiri sveitafélög en Reykjavík um uppbyggingu.
Í bréfi skrifstofa borgarstjóra og borgarritara, sem lagt var fyrir borgarráð, kemur fram að heimilað byggingarmagn við Vindás-Brekknaás sé samtals 1.350 fermetrar innan hverrar lóðar.
Heildarbyggingarmagn er samtals 6.750 m2 ofanjarðar. Samþykkið er háð því skilyrði að Bjarg sæki um og hljóti stofnframlag á grundvelli laga.
Fyrir byggingarréttinn eru greiddar 45.000 kr. pr. fermetra sem er verð byggingarréttar fyrir húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.
Bjarg mun greiða 303.750.000 kr. fyrir byggingarrétt ofanjarðar. Gatnagerðargjöld lóðarinnar eru 89.572.500 kr. Samtals greiðir Bjarg 393.322.500 kr. fyrir byggingarrétt og gatnagerðargjöld.
Hluta byggingarréttar verður skuldajafnað á móti 12% stofnframlagi Reykjavíkurborgar sem veitt er á grundvelli laga.
Við Vindás-Brekknaás munu Félagsbústaðir byggja búsetukjarna fyrir sex fatlaða íbúa ásamt stoðrýmum. Íbúar munu njóta þjónustu allan sólarhringinn. Stærð hússins verður 600 fermetrar.
Heimild: Mbl.is