Home Fréttir Í fréttum Meira byggt í Bolungarvík en sést hefur í seinni tíð

Meira byggt í Bolungarvík en sést hefur í seinni tíð

244
0
Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir, forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur, og aðstoðarleikskólastjóri. ARNAR HALLDÓRSSON

Óvenju mikil umsvif eru í húsbyggingum í Bolungarvík, bæði í íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

<>

Ráðamenn bæjarins segjast í seinni tíð ekki hafa séð annan eins fjölda umsókna um lóðir undir nýjar íbúðir.

Í fréttum Stöðvar 2 sáum við leikskólabörn í Bolungarvík, sem núna eru yfir fimmtíu talsins.

„Við erum nýlega búin að stækka við leikskólann okkar,“ segir aðstoðarleikskólastjórinn Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir, sem jafnframt er forseti bæjarstjórnar.

Og í grunnskólanum eru yfir 120 nemendur.

„Það er fjölgun í grunnskólanum, veit ég, og eins í leikskólanum.“

Við höfnina er verið að byggja yfir Fiskmarkað Vestfjarða.
ARNAR HALLDÓRSSON

Og núna eru húsbyggingar á fullri ferð. Miklar framkvæmdir hafa verið við stækkun frystihúss Jakobs Valgeirs ehf. og nýtt hús er að rísa yfir Fiskmarkað Vestfjarða.

Byggingafulltrúinn Finnbogi Bjarnason segir að í seinni tíð hafi Bolvíkingar ekki séð eins mikið byggt og núna.

Einn mælikvarðinn á vöxt og viðgang samfélaga eru nýbyggingar á íbúðarhúsnæði.

Við Þjóðólfsveg er byggingaverktakinn Hrafnshóll að reisa fimm íbúða raðhúsalengju fyrir leigufélagið Nýjatún, ýmist til sölu eða leigu. Þrjár íbúðanna verða 75 fermetra og þriggja herbergja og tvær 90 fermetra og fjögurra herbergja.

Fimm íbúða raðhúsalengja er í smíðum við Þjóðólfsveg.
ARNAR HALLDÓRSSON

Við vörpum því til forseta bæjarstjórnar hvort þetta sé til marks um endurvakinn þrótt Bolungarvíkur:

„Það er eitt það gleðilegasta við Bolungarvík núna – þá tel ég svo vera – allavega í minni tíð í bæjarstjórn, hafa ekki verið fleiri umsóknir um íbúðalóðir.

Um byggingu íbúða, hvort sem það eru einbýlishús, raðhús eða fjölbýlishús,“ segir Guðbjörg.

Þá sögðum við nýlega frá fjórtán íbúðum sem verið er að innrétta í byggingu sem áður hýsti skrifstofur og Náttúrugripasafn bæjarins.

„Þar er verið að byggja upp íbúðir til leigu. Af því að það vantar húsnæði hérna,“ segir Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir, forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur.

Heimild: Visir.is