Samkeppnisyfirvöld hafa til skoðunar erindi um meinta mismunun á sementsmarkaði. Sementsverksmiðjan hefur neitað Steinsteypunni um kaup, en skortur er á sementi til byggingaframkvæmda í landinu.
Talsverður titringur er vegna skorts á sementi til byggingaframkvæmda. Óttast er að keðjuverkun geti orðið sem leiði til uppsagna ef ástandið batnar ekki fljótlega.
Samkeppnisyfirvöld hafa mál til skoðunar þar sem eitt fyrirtæki hefur neitað að selja öðru sement.
Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins staðfestir í samtali við fréttastofu að erindi sé þar til umfjöllunar varðandi meinta mismunun á markaði við kaup á sementi.
Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur fyrirtækið Steinsteypan leitað til samkeppnisyfirvalda vegna þess að Sementsverksmiðjan neitar að selja þeim sement.
Forstjóri Steinsteypunnar gaf ekki kost á viðtali í dag. Björn Ingi Victorsson forstjóri Steypustöðvarinnar segir Steypustöðina hafa fengið sömu svör um kaup á hráefninu.
„Við höfum reynt að fá sement hjá Sementsverksmiðjunni en höfum fengið höfnun.”
Hjá Sementsverksmiðjunni fengust þær upplýsingar að menn reyndu hvað þeir gætu að standa við skuldbindingar gagnvart föstum viðskiptavinum en ekki væri unnt að bæta við nýjum. Sementsverksmiðjan og BM Vallá eru tengd fyrirtæki.
Björn Ingi Victorsson forstjóri Steypustöðvarinnar kveðst ekki vita til þess að ástand á sementsmarkaði í líkingu við þetta hafi orðið hér á landi áður.
„Ekki svona skortur. Þegar við erum að skoða okkar rekstraráætlun í gegnum árin þá hefur þetta aldrei komið upp í myndinni hjá okkur. Ég held að það sé bara ljóst, við sjáum þetta bara alls staðar úti í heimi.
Það er skortur á hráefnum og sementið er eitt af þeim efnum sem er mikilvægt fyrir þennan geira og við ættum að hafa miklar áhyggjur af þessu.”
AAlborg Portland er annað tveggja innflutningsfyrirtækja á sementi, hitt er Sementsverksmiðjan.
AAlborg Portland er með birgðastöðvar í Helguvík, á Reyðarfirði og á Akureyri.
Sementið í Helguvík er búið hjá AAlborg Portland. Ekki hefur tekist að eiga nægar birgðir. Til að bæta gráu ofan á svart reynist erfitt að fá skip.
Sementi er nú ekið frá Reyðarfirði og Akureyri til Reykjavíkur til að halda uppi lágmarksþjónustu fyrirtækisins við viðskiptavini. Von er á skipi fyrir lok næstu viku og er vonast til að ástandið batni.
Sementskreppan hófst í haust og valda margir samverkandi þættir því að skortur er á þessu mikilvæga efni til steypuvinnslu.
Þar má nefna rekstrartruflanir í verksmiðjum vegna heimsfaraldurs, flutningsskort og einnig uppbyggingu eftir faraldurinn sem eykur eftirspurn.
Heimild: Ruv.is