Home Fréttir Í fréttum Horfirðingum gert að byggja ódýrara hjúkrunarheimili

Horfirðingum gert að byggja ódýrara hjúkrunarheimili

186
0
Mynd: Þorvarður Árnason - Hornafjörður
Lægsta tilboð í hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði var talsvert yfir kostnaðaráætlun og vill ríkið að framkvæmdin verði gerð ódýrari. Bæjarstjórn harmar þá afstöðu og telur þetta boða enn frekari tafir.

Lengi hefur staðið til að byggja nýtt hjúkrunarheimili á Hornafirði og átti það að verða tilbúið á þessu ári.

<>

Löngu var orðið ljóst að það næðist ekki en nú er útlit fyrir enn frekari tafir.

Tvö tilboð bárust í verkið og var það lægra, frá Húsheild, 18% yfir nýjustu kostnaðaráætlun.

Framkvæmdasýsla ríkisins bar málið undir heilbrigðisráðuneytið sem leitaði umsagnar hjá fjármálaráðuneytinu.

Eftir það lagði heilbrigðisráðuneytið til að báðum tilboðum yrði hafnað og leitað leiða til að draga úr kostnaði við framkvæmdina.

Bæjarstjórn á Hornafirði er ekki sátt við það og samþykkti bókun þar sem afstaða ríkisins er hörmuð.

Verkefnið hafi dregist fram úr hófi og á sama tíma hafi byggingarkostnaður hækkað verulega, meðal annars vegna heimsfaraldurs.

Sveitarfélagið Hornafjörður hafi nú þegar greitt tæpar 200 milljónir í undirbúning sem hafi komið niður á öðrum nauðsynlegum verkefnum.

Fram kemur í bókuninni að Framkvæmdasýsla ríkisins sé að skoða hvaða leiðir séu færar án þess að bjóða þurfi út framkvæmdina á ný.

Bæjarstjórn skorar á þingmenn og ráðherra Suðurkjördæmis að styðja Sveitarfélagið Hornafjörð í að framkvæmdin hljóti framgöngu án frekari tafa.

Heimild: Ruv.is