Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra friðlýsti hafnargarðinn sem fannst þegar verktakar voru að grafa fyrir nýbyggingum á lóð við Austurbakka. Framkvæmdir á lóðinni hafa tafist vegna þessa, en þrátt fyrir yfirlýsingu ráðherra telur Gísli Steinar Gíslason, stjórnarformaður Landstólpa, að garðurinn sé ekki friðaður.
„Nei hann var skyndifriðaður þar sem hann var ekki eldri en 100 ára og skyndifriðun gildir í sex vikur og þeir staðfestu ekki friðlýsingu innan sex vikna. Þar af leiðandi er hann ófriðaður í dag.“
– Ætlið þið að fjarlægja garðinn?
„Við þurfum að halda áfram með verkið en við eigum vonandi fund með fulltrúum forsætisráðherra á morgun og sjáum þá hvort við náum ekki að lenda málinu farsællega, þannig að menn hafi einhverja sameiginlega sýn á málinu. Við höfum ekki verið í neinum samræðum við þá í þessar sex vikur. Það er svolítið seint að fara að vinna að þessu núna.“
– Ætlið þið að fjarlægja garðinn sama hvað kemur út úr þessum fundi með forsætisráðuneytinu?
„Nei við erum að vona að við getum fundið einhverja lausn sem báðir geta unað við, að ef þeir vilja friða garðinn þá erum við tilbúnir að vinna að því með þeim en það þarf einhver að bera kostnaðinn sem er mældur í milljörðum,“ segir Gísli.
– Hver ætti að bera þann kostnað?
„Það hlýtur að vera ríkið í þessu tilfelli. Hvers vegna? Af því að þeir grípa inn í með skyndifriðun. Ef þeir vilja friðlýsa vegginn sem er ekki friðlýstur í dag þá þurfa þeir að bera kostnaðinn af því.“
Gísli segir að ef hafnargarðurinn eigi að standa áfram á sínum stað þurfi að endurhanna fyrirhugaðar byggingar fyrir að lágmarki 2,2 milljarða króna. Meðal annars þurfi að færa fyrirhugaðan bílakjallara undir Geirsgötu.
Heimild: Rúv.is