Home Fréttir Í fréttum Ný hesthúsabyggð við Gaddstaðaflatir

Ný hesthúsabyggð við Gaddstaðaflatir

269
0
Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Búið er að reisa fyrsta hesthúsið í nýju hesthúsahverfi við Gaddstaðaflatir, landsmótsstað Sunnlendinga við Hellu. Alllangt er síðan hverfið var skipulagt, en þar hefur ekki verið byggt fyrr en nú. Rísi fleiri hesthús á þar á næstu árum getur það breytt það miklu fyrir keppendur á svæðinu.

Kristjón Laxdal Kristjánsson hestamaður á Hellu byggir nýja hesthúsið, en burðarvirki þess reis um helgina. Hann er kunnur tamningamaður, þjálfari og ræktandi og var í 14 ár bú og ræktunarstjóri á Kvistum. Þaðan komu á þeim tíma þekktir verðlaunahestar á heimsmeistaramótum og landsmótum, eins og stóðhestarnir Muni, Ómur og Óliver.

<>

Nýja hverfið er skipulagt í næsta nágrenni við Rangárhöllina, reiðhöll hestamanna á svæðinu. Steinsnar frá er stóðhestahús mótssvæðisins á Gaddstaðaflötum. Nýja hesthúsið er ríflega 200 fermetrar, byggt úr límtré og yleiningum, ætlað fyrir 16 hesta í eins hesta steyptum stíum.  Grafið var fyrir húsinu í haust og er stefnt að því að koma því í notkun svo fljótt sem verða má. „Ég stefni á að taka hér inn hesta fyrir jól“, segir Kristjón.

Heimild: Rúv.is