Home Fréttir Í fréttum Dagsektir vegna skólps við Jökulsárlón

Dagsektir vegna skólps við Jökulsárlón

31
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Dæmi eru um að skólp frá ferðaþjónustu hafi flætt lítt hreinsað úr rotþró nærri Jökulsárlóni og útbætur hafa tafist í minnst tvö ár. Heilbrigðiseftirlit Austurlands ætlar að leggja dagsektir á fyrirtækið frá mánaðamótum.

Jökulsárlón er einn fjölsóttasti og vinsælasti ferðamannastaður landsins. Við lónið er lítill veitingastaður með salernum og fer skólp þaðan í rotþró.

<>

Vandamálið er að við rotþróna er hvorki svokölluð siturlögn né sérstakt ljós sem drepur niður örveruflóru.

Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands hefur komið fyrir að rotþróin fyllist og rennur þá skólpið út á mel.

Heilbrigðiseftirlitið hefur ítrekað veitt fresti til úrbóta og telur ekki forsvaranlegt hvað þær hafa tafist lengi.

Á síðasta fundi heilbrigðisnefndar var samþykkt að leggja á 10 þúsund króna dagsektir frá og með 1. október verði ekki búið að laga fráveituna fyrir þann tíma.

Einar Björn Einarsson, framkvæmdastjóri Jökulsárlóns ferðaþjónustu, segir að allt hafi verið keypt í bætta fráveitu fyrir tveimur árum síðan en margt hafi tafið uppsetningu.

Meðal annars hafi reynst erfitt að fá pípara til verksins og það þurft að sitja á hakanum. Þegar fara átti í verkið í vor uppgötvaðist að ljós sem var pantað hentaði ekki og þurfti að panta nýtt.

Hitaveituframkvæmdir á Hornafirði hafi tekið mikinn tíma hjá pípurum en nú sé komin áætlun um uppsetningu og eigi hún að hefjast nú um mánaðamótin.

Heimild: Ruv.is