Home Fréttir Í fréttum Viðgerðum á sjávarvarnagörðum á Sauðárkróki lokið

Viðgerðum á sjávarvarnagörðum á Sauðárkróki lokið

13
0
Að framkvæmdum loknum við varnargarðana við Strandgötu á Sauðárkróki. Aðrar myndir hér að neðan eru frá framkvæmdum í byrjun sumars og nú um mánaðamótin. MYNDIR: ÓAB

Nú er lokið framkvæmdum við sjóvarnargarða við Skarðseyri og Strandgötu á Sauðárkróki en garðarnir urðu fyrir miklum skemmdum í óveðrum seinni part ársins 2019.

<>

Framkvæmdir hófust síðastliðið haust og var fyrst ráðist í viðgerðir við Skarðseyri en þar var 450 metra kafli lagfærður og hækkaður um einn metra.

Í sumar hafa viðgerðir staðið yfir við Strandveginn og lauk þeim nú um mánaðamótin.

Í kjölfarið á óveðrunum flæddi ítrekað inn á athafnasvæði hafnarinnar og fyrirtækjanna sem þar hafa aðstöðu og fylgdi flóðunum töluvert tjón fyrir atvinnurekendur.

Það var því algjörlega nauðsynlegt að gert yrði við garðana sem fyrst. Feykir hafði samband við Dag Þór Baldvinsson, hafnarstjóra Skagafjarðarhafna, og líst honum ágætlega á báða grjótgarðana.

„Þó á eftir að koma reynsla á þá, heppilegast hefði verið að færa þá lengra út í sjó.“

Varðandi aðrar fréttir af höfninni segir Dagur Þór að fyrirhugað sé að fara í að fjarlægja þverstubbinn svokallaðan í innsiglingunni, sem gerður var árið 2006, og lengja norðurgarð um 30 metra.

„Verkið mun hefjast núna í september og mun þetta verða bylting fyrir aðkomu stórra skipa inn í höfnina og auka öryggi þeirra,“ segir Dagur. Búið er að ganga að tilboði frá Víðimelsbræðrum ehf.

Einnig er á döfinni að verja Hofsóshöfn betur, hönnunin á því verki er í vinnslu. Á næsta ári stendur til að setja upp nýtt þil á Sauðárkrókshöfn á 270 metra kafla.

Heimild: Feykir.is