Home Fréttir Í fréttum Mikil arðsemi af byggingu Sundabrautar

Mikil arðsemi af byggingu Sundabrautar

125
0

Vegagerðin vinnur nú að frekari undirbúningi Sundabrautar en vinna við félagshagfræðilega greiningu framkvæmdarinnar er nú langt komin og liggja fyrir drög að niðurstöðum sem eru til umfjöllunar í starfshópi um legu Sundabrautar.

<>

Starfshópurinn skilaði greinargerð sinni um legu Sundabrautar í janúar 2021 þar sem farið var yfir þá valkosti við þverun Kleppsvíkur sem helst hafa komið til greina, annars vegar Sundabrú sem tengist Sæbraut til móts við Holtaveg og hins vegar Sundagöng.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík undirrituðu í júlí 2021 yfirlýsingu um hver næstu skref yrðu varðandi undirbúning Sundabrautar.

Þar kom fram að lokinni félagshagfræðilegri greiningu yrðu undirbúnar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur ásamt umhverfismati framkvæmdarinnar.

Í yfirlýsingunni kemur fram að stefnt sé að því að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist eigi síðar en 2026 og að brautin yrði tekin í notkun árið 2031.

Niðurstöðurnar benda til að arðsemi Sundabrautar sé mikil og er það í samræmi við fyrri athuganir og er framkvæmdin metin arðsöm hvort sem um er að ræða Sundabrú eða Sundagöng.

Í greinargerð starfshóps frá því í janúar 2021 voru svokallaðir innri vextir Sundabrúar metin yfir 10%.

Hefðbundin viðmið um að verkefni séu talin fýsileg er að innri vextir séu yfir 3,5%. Ábati notenda Sundabrautar, hvort sem er akandi, hjólandi eða með almenningssamgöngur er því verulegur.

„Það er því verulegur samfélagslegur ávinningur af framkvæmdinni og hún metin sem hagkvæm framkvæmd þegar horft er til félagshagfræðilegra þátta.

Megin ávinningurinn er sparnaður í ferðatíma vegfarenda svo og minni akstursvegalengdir en umferðarlíkön gera ráð fyrir að við opnun brautarinnar geti heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu minnkað um tæplega 60 milljón kílómetra árlega eða um 160 þús. km á sólarhring.

Tímasparnaður og styttri vegalengdir leiða jafnframt af sér minni útblástur kolefnis, færri slys, minni hávaða og minni mengun.

Allt þetta á við hvort sem um er að ræða Sundabrú eða Sundagöng,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar og formaður starfshópsins.

„Drögin sýna því fram á að Sundabraut er hagkvæm og skynsamleg framkvæmd þegar horft er til slíkra mælikvarða,“ segir Guðmundur Valur.

Hann bendir líka á að greinargerðin er í yfirferð og rýni hjá starfshópi um Sundabraut og á eftir að fá formlega umfjöllun og kynningu þar.

Þó svo að niðurstöður greinargerðar starfshópsins frá því í janúar 2021 hafi verið á þá leið að kostir Sundabrúar væru taldir nokkrir umfram Sundagöng, m.a. með lægri stofnkostnað og rekstrarkostnað þá munu báðir valkostir verða teknir til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í samræmi við yfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjóra.

Vegagerðin undirbýr nú næstu skref við undirbúning framkvæmdarinar svo sem mat á umhverfisáhrifum og samstarfi við Reykjavíkurborg um breytingar á aðalskipulagi.

Heimild: Vegagerðin.is