Home Fréttir Í fréttum Endurbygging Ásgarðs í Skagastrandarhöfn

Endurbygging Ásgarðs í Skagastrandarhöfn

18
0

Nauðsynlegt er að ráðast í endurbætur á Ásgarðsbryggju í Skagastrandarhöfn til þess að hún geti áfram þjónað sínum tilgangi og er verkefnið ærið, að því er fram kemur á vef Skagastrandar.

<>

Við bryggjuna hafa legið bátar af mismunandi stærðum í gegnum árin og hefur hún þjónað mikilvægu hlutverki fyrir hafnarstarfsemi á Skagaströnd. Í dag er ástand Ásgarðs ekki eins og best verður á kosið.

Á vef Skagastrandar kemur fram að skoðaðir hafa verið nokkrir möguleikar á endurnýjun bryggjunnar og að mörg ár eru síðan sú vinna hófst og þar með baráttan fyrir umbótum.

Vísað er í mat hafnarsviðs Vegagerðarinnar en það telur að endurbyggingu Ásgarðs verði best borgið með því að setja stálþil utan um núverandi bryggju og að Miðgarði, þó að fleiri útfærslur hafi verið teknar til athugunar.

„Þó það sé langhlaup að knýja fram framkvæmdir, og hvað þá á þessum skala, er gaman að segja frá því að verkefnið hefur hlotið brautargengi og er á fimm ára aðgerðaráætlun samgönguáætlunar 2020-2024.

Það er stór áfangi og jákvæður fyrir uppbyggingu á Skagaströnd. Gildandi samgönguáætlun felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og víðtæk áform m.a. um nauðsynlegt viðhald á höfnum sem ber að fagna og við Skagstrendingar njótum þar góðs af,“ segir á vef Skagastrandar.

Heildarkostnaður vegna framkvæmda er áætlaður 245 milljónir króna. Stefnt er að því að frumhönnun og efniskaup verði lokið á þessu ári og að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Verklok eru áætluð árið 2023.

Heimild: Huni.is