Home Fréttir Í fréttum Helgafellsskóli afhentur Mosfellsbæ

Helgafellsskóli afhentur Mosfellsbæ

190
0
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri og Bergþór Ásgeirsson frá Flotgólf ehf.

Helgafellsskóli var afhentur Mosfellsbæ við formlega athöfn í skólanum þann 7. september að viðstöddum bæjarfulltrúum, nefndarmönnum í fræðslunefnd, starfsmönnum fræðslu- og frístundasviðs og umhverfissviðs Mosfellsbæjar.

<>

Skólinn er afhentur á réttum tíma og undir kostnaðaráætlun.
Hönnun Helgafellsskóla var á höndum Yrki Arkitekta og VSB verkfræðistofu.

Í ársbyrjun 2019 voru 1. og 4. áfangar skólans teknir í notkun og nú tveimur árum síðar eru 2.- 3. áfangar skólans tilbúnir. Í þeim hluta skólans verður 7.-10. bekkur auk sérgreinastofa skólans eins og raungreinastofur, listasmiðjur og gróðurhús svo nokkuð sé nefnt. Þá er í þessum áfanga vel búinn hátíðarsalur.

Innan kostnaðar- og tímaramma
Fyrirtækið Flotgólf vann að uppbyggingu 2.-3. áfanga og tókst þrátt fyrir utanaðkomandi tafir að halda verkinu á áætlun.
Undirbúningur að byggingu Helgafellsskóla hófst í ársbyrjun 2015 og 1. og 4. áfangar voru teknir í notkun í janúar 2019.

„Stýrihópur verkefnisins hefur að mínu mati skilað einstaklega góðu verki,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

„Þá vil ég sérstaklega hrósa fyrirtækinu Flotgólf fyrir vandaða vinnu, góð og uppbyggileg samskipti á byggingartímanum og einstaka tillitssemi gangvart starfsemi þess hluta skólans sem starfaði á byggingartímanum.

Kostnaðarrammi 2. og 3. áfanga var áætlaður rúmir 2,3 milljarðar króna og er heildarkostnaður við byggingu þessa áfanga áætlaður um 98% af kostnaðarramma.

Verkefnið í heild er því í senn innan kostnaðarramma og tímaramma.

Það er mikilvægt að ná slíkum árangri í opinberum rekstri og slík jákvæð frétt nær ekki alltaf eyrum allra.

Ég vil því nota þetta tækifæri til að hrósa öllum þeim sem að verkefninu hafa komið enda getum við verið stolt af þessum glæsilega skóla.

Skólinn verður sannkallað hjarta Helgafellshverfis og bæði salir skólans og lóð verða þungamiðja menningar- og mannlífs í hverfinu í nánustu framtíð“ segir Haraldur.

Heimild: Mosfellingur.is