Home Fréttir Í fréttum Gæti tekið ár að koma moltugerð aftur af stað

Gæti tekið ár að koma moltugerð aftur af stað

99
0
Mynd: Þór Ægisson
Jarðgerð í gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi gæti legið niðri í allt að eitt ár á meðan gert er við mygluskemmdir í húsnæðinu. Forsvarsmenn Sorpu telja að mistökin liggi í hönnun byggingarinnar.

GAJA hóf starfsemi í ágúst í fyrra og byrjunin hefur verið brösug. Kostnaður fór langt fram úr áætlun og moltan sem þar er gerð hefur reynst ónothæf. Nú hefur síðan fundist mygla þótt ekki sé nema ár síðan starfsemi hófst í glænýju húsnæðinu.

<>

Sigtun innandyra gæti skýrt myglu

Húsnæðið er þegar farið að láta á sjá, einkum á þakinu þar sem eldvarnarmálning er farin að flgana af.

Þakið og burðarvirkið er úr tré og telja forsvarsmenn Sorpu að mistök hafi verið gerð í hönnunarferlinu.

„Það sem er nýtt við þessa og öðruvísi en aðrar jarðgerðarstöðvar er að við erum með sigtun á moltu innandyra og það er hluti af samkomulaginu milli eigenda um að hætta að urða, að við myndum byggja gas- og jarðgerðarstöð og vera með sigtunina inni til að sporna við lyktarmengun sem er eitt af því sem Mosfellingar hafa kvartað svolítið undan,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu og bætir við að taka hefði átt tillit til þessa þegar húsið var hannað.

Í tilkynningu Sorpu segir að upplýsingagjöf til stjórnar á byggingartíma hafi verið verulega ábótavant og jafnvel villandi.

„Það er auðvitað umhugsunarefni af hverju glæný stöð er byrjuð að mygla, eðlilega. Það var ekki borið undir stjórn tiltekin atriði í hönnunarferlinu en ég velti því fyrir mér hvað brást í forsendum hönnunarferilsins,“ segir Líf Magneudóttir, stjórnarformaður Sorpu.

Ólán á ólán ofan

Jarðgerð liggur niðri þangað til lausn vandans verður fundin en gasgerðin heldur áfram. Allt þetta kemur til með að kosta tíma og peninga.

„Hugsanlega þurfum við að bæta í loftræstingum og við þurfum hugsanlega að flytja sigtunina út í annað húsnæði. Þá erum við að tala alla vega um sex til tólf mánuði sem þetta getur tafið okkur. Ég býst við að hann [kostnaðurinn ]verði tugir milljóna,“ segir Jón Viggó.

Óháðir eftirlitsaðilar verða fengnir til að meta umfang vandans og komi í ljós að handvömm hafi orðið í hönnun og efnisvali mun Sorpa leita réttar síns.

– Stöðin fór langt fram úr fjárhagsáætlun, moltan sem þar er gerð er ekki nothæf og nú kemur mygla. Er þetta ekki orðið svolítið mikið?

„Það er erfið fæðing að koma hringrásarhagkerfinu á höfuðborgarsvæðinu á koppinn, vissulega. Þetta er nýjung, við erum að innleiða hringrásarhagkerfið, GAJA er mikilvægur liður í því,“ svarar Líf.

Heimild: Ruv.is