Mikil umsvif eru núna í byggingageiranum á Austurlandi og segir framkvæmdastjóri stærsta byggingafélags fjórðungsins að fjölda fólks vanti þar til starfa.
Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá hvar verið er að byggja sjöhundruð milljóna króna leikskóla í Fellabæ, úthverfi Egilsstaða.
Þetta er eitt af mörgum verkum MVA byggingaverktaka. Nafnið stendur fyrir Múrverktakar Austurlands og þeir eiga að skila leikskólanum fullbúnum að ári.
„Þriggja deilda leikskóla sem verður mjög góð viðbót fyrir bæjarfélagið,“ segir Stefán Vignisson, framkvæmdastjóri MVA byggingaverktaka.
Þeir byrjuðu þrír í fyrirtækinu árið 2012. Það hefur síðan sameinast öðrum og bætt við starfsemi, síðast með kaupum á steypueiningaverksmiðju VHE í Fellabæ. Starfsmannafjöldinn telur núna tugi manna.
„Við erum í kringum fjörutíu í dag. Gætum verið mun fleiri. Það vantar.. ég kæmi allavega tíu að í viðbót.“
-Er svona mikið að gera á Austurlandi?
„Það er rosalega mikið að gera.“
Þar segir Stefán mestu muna um fjárfestingar í sjávarútvegi.
„Fiskvinnslufyrirtækin bara um alla firði eru að framkvæma. Á Norðfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði.“
Starfssvæðið segir hann stórt.
„Það má eiginlega segja frá Hornafirði og norður á Akureyri.“
Þeir steypa einingar fyrir skógarböðin á Akureyri, á Hornafirði byggðu þeir parhús, á Kópaskeri er það fiskeldisstöð, í Berufirði brú og á Eskifirði flóðvarnir. Og hann segir margt í pípunum.
„Það á eftir að verða gríðarleg uppbygging í fiskeldi hérna. Sjávarútvegurinn er náttúrlega rosalega sterkur í þessum fjórðungi.
Og það er mikil þörf á innviðabyggingum í sveitarfélögunum, bæði í Múlaþingi og hérna í kring.
Þannig að framtíðin er bara mjög björt,“ segir Stefán Vignisson.
Heimild: Visir.is