Home Fréttir Í fréttum Bæjarskrifstofur Akraneskaupstaðar rýmdar vegna mygluvandamáls

Bæjarskrifstofur Akraneskaupstaðar rýmdar vegna mygluvandamáls

104
0
Mynd: Skessuhorn.is

Ákveðið hefur verið að flytja starfsemi bæjarskrifstofa Akraneskaupstaðar úr Stillholti 16-18 í nýtt húsnæði að Dalbraut 4 sem byggt var sem félagsaðstaða eldri borgara og verður tekið í notkun í haust.

<>

Þetta er gert vegna raka og myglu sem greinst hefur í húsnæði bæjarskrifstofunnar. Fyrstu tíu starfsmenn bæjarskrifstofanna eru þegar fluttir yfir á Dalbraut en þeir síðustu verða farnir eftir hálfan mánuð.

Þetta staðfestir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn. Að sögn Sævars hefur sýnataka úr húsnæðinu leitt í ljós raka og myglugró, sem talið er tengjast ófullnægjandi frágangi á gluggum og klæðningu hússins.

Ekki liggur fyrir hvenær viðgerðum lýkur en gert ráð fyrir að þær taki að minnsta kosti eitt ár.

Eignarhald hússins við Stillholt 16-18 er á höndum Regins, Ríkissjóðs, Akraneskaupstaðar og ýmissa smærri eignaraðila. Akraneskaupstaður á um 20% í því húsnæði sem bærinn hefur til afnota.

Undanfarið hafa átt sér stað fundir eigenda til að undirbúa næstu skref og viðgerðir. „Eftir er að búa til útboðsgögn fyrir lagfæringar á húsinu.

Nú er verið að skoða hversu umfangsmiklar viðgerðir þurfa að fara fram. Það liggur hins vegar fyrir að ófullnægjandi viðgerð var gerð á húsinu fyrir þremur árum. Ytra byrðið var lagað en rakavandamálin voru skilin eftir og hafa grasserað síðan.“

Samnýta með eldri borgurum

Sævar Freyr segir mjög ánægjulegt að gott samkomulag er við stjórn FEBAN um að samnýta félagsaðstöðuna við Dalbraut 4.

„Við getum á þessari stundu ekki tímasett viðveru okkar á Dalbrautinni og búumst því við að verða í góðu samneyti við eldri borgara sem þar eru nú byrjaðir að koma sér fyrir.

Fyrirkomulagið verður með þeim hætti að bæjarskrifstofan tekur þriðjung af samkomusal fyrir skrifstofur og verður komið upp borðum og búnaði og unnið í opnum vinnurýmum.

Við munum fara að dæmi ýmissa fyrirtækja sem vinna í opnum vinnurýmum og koma upp um sjö borðum á hverja tíu einstaklinga sem hjá okkur starfa.

Móttaka okkar mun hins vegar verða á jarðhæð í rými sem ætlað er fyrir fatahengi,“ segir Sævar.

Húsið við Dalbraut 4 er langt komið að öðru leyti en því að tafir hafa orðið á uppsetningu tækja í eldhús og verður það því ekki komið í notkun fyrr en um áramót.

Eftir að rakavandamál voru staðfest í Grundaskóla fyrr á þessu ári var ráðinn sérfræðingur frá Verkís.

„Verkefni hans er að taka út allar stofnanir, skóla og byggingar í eigu bæjarins. Stjórnsýslubyggingin var fyrst í röðinni á eftir Grundaskóla, en hann mun skoða aðra skóla og hús í eigu bæjarfélagsins. Sú vinna er nú í fullum gangi,“ segir Sævar.

Þakka skilninginn

Bæjarráð Akraness fjallaði um málið á fundi í síðustu viku. Þar kom fram að áætlað er að verja ríflega 14 milljónum króna til fyrirhugaðra flutninga starfsfólks og starfsemi bæjarskrifstofanna. Í bókun segir: „Bæjarráð óskar eftir og vonast til að framkvæmd flutninganna gangi sem best og að röskun á starfseminni verði sem minnst en þá kynnt þjónustuþegum á heimasíðu Akraneskaupstaðar.

Þá þakkar bæjarráð forsvarsmönnum FEBAN fyrir þann góða skilning sem þeir hafa sýnt stjórnendum og starfsfólki við þær erfiðu aðstæður sem skapast hafa í starfsemi kaupstaðarins vegna þessa.“

Heimild: Skessuhorn.is