Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir stöðvaðar við útsýnispallinn á Bolafjalli

Framkvæmdir stöðvaðar við útsýnispallinn á Bolafjalli

184
0
Mynd: Finnbogi Bjarnason - Aðsend
Framkvæmdir við útsýnispallinn á Bolafjalli við Bolungarvík hafa verið stöðvaðar þar sem byggingarleyfi hefur enn ekki verið gefið út fyrir framkvæmdinni.
Sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir menn þarna komna langt fram úr sér og málið sé eitt það versta sem hann hafi séð.

Þetta staðfestir Pétur Bolli Jóhannesson, sérfræðingur á sviði Öryggis mannvirkja hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, en hann er byggingafulltrúi á öryggis- og varnarsvæðum Íslands.

<>

Hann segir umsókn um byggingarleyfi hafa borist 10. júní. Byggingafulltrúi hafi í framhaldinu farið yfir gögnin, tekið saman athugasemdir í 20 liðum og sent formlega til baka á Bolungarvíkurkaupstað þremur dögum síðar, þann 13. júní.

Pétur Bolli segir leiðrétt gögn ekki hafa borist til baka og byggingarleyfi þar af leiðandi ekki gefið út. Það sé ekki fyrr en hann sjái frétt á mbl.is að hann geri sér greint fyrir því að bygging útsýnispalls á Bolafjalli sé langt komin.

Hann hafði samband þann 17. ágúst sl. við umsjónaraðila hjá Bolungarvík, Finnboga Bjarnason byggingarfulltrúa og hönnuðinn, Einar Hlér frá SEI Arkitektum, og fór fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar strax. Fréttastofa hefur gögn undir höndum sem staðfesta þetta.

„Þetta er alvarlegt mál því þetta snýst um öryggi. Ef eitthvað hefði komið þarna fyrir þá er bent á okkur. Sem byggingarfulltrúi er ég mjög ósáttur við hvernig staðið var að þessu.“

„Það er okkar að fylgjast með því að verkið sé unnið eins og vera ber. Það er hinsvegar ekki hægt að gera það þegar vaðið er af stað í verkið. Hver það var sem gaf “go” á framkvæmdina, ja ekki vorum það við.“

Pétur Bolli segir þetta slæmt mál og ekki vel staðið að verki.

„Hér eru menn komnir langt fram úr sér og þetta er eitt versta tilfellið sem ég hef séð. Ég hef satt að segja aldrei séð neitt þessu líkt þann tíma sem ég hef verið byggingarfulltrúi.“

Fréttastofa heyrði í Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra Bolungarvíkur, í morgun. Hann vildi ekki kannast við að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar enda væri það skrýtið þegar útsýnispallurinn væri svo að segja tilbúinn.

Aðeins væri verið að bíða eftir gólfinu á pallinn samkvæmt pöntun frá Ítalíu og að því gefnu að það skilaði sér á réttum tíma yrði pallurinn opnaður almenningi um miðjan september á þessu ári.

Pétur Bolli segist undrandi á því að bæjarstjórinn hafi ekki vitað um stöðvun framkvæmda. Byggingaraðila hafi verið tilkynnt um stöðvunina, og hann staðfest um hæl að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar. Verktakinn starfi fyrir bæjarstjóra og hljóti að hafa upplýst hann.

„Þetta er í raun ótrúlega barnaleg stjórnsýsla, og eitt af þessum slæmu tilfellum. Svona á alls ekki að vinna þetta. Það er lykilatriði að samþykktir liggi fyrir með svona framkvæmd, ekki síst þegar um er að ræða mannvirki í tæplega 700 metra hæð,“ segir Pétur Bolli.

Hann segist ekki enn hafa náð að fara yfir leiðrétt byggingargögn enda hafi þau ekki borist fyrr en í gær.

„Það er því eitthvað í það að gefið verði út byggingarleyfi fyrir útsýnispallinum. Auk þess er eignarhaldið á landinu sem pallurinn stendur á ekki alveg skýrt,“ segir Pétur Bolli.

Heimild: Ruv.is