Home Fréttir Í fréttum Draugahúsið á Njarðargötu fær að grotna niður í friði

Draugahúsið á Njarðargötu fær að grotna niður í friði

506
0
Njarðargata 35 sker sig töluvert úr húsaröðinni við þessa fallegu götu. Húsið hefur staðið autt síðan 1991. Fréttablaðið/Anton Brink

Í 30 ár hefur húsið við Njarðargötu 35 staðið autt. Þrátt fyrir blaðaskrif, skýrslur, kvartanir nágranna og íbúasamtaka miðbæjarins gerist ekkert og leyfir borgin húsinu að drabbast niður.

<>

Njarðargata 35 í miðborg Reykjavíkur hefur staðið auð síðan verktaki keypti húsið 1991.

Það hefur eðlilega drabbast niður á þeim tíma og stendur sem þyrnir í augum nágranna sinna sem eru orðnir langþreyttir á ástandinu.

Grannarnir sem Fréttablaðið náði tali af vildu ekkert vera að blanda sér í þessa baráttu en kölluðu eftir aðgerðum borgarinnar.

Það hafa Íbúasamtök miðborgar Reykjavíkur einnig gert en hróp þeirra heyrast ekki inn í stjórnkerfið.

Samtökin gáfu út skýrslu á síðasta ári sem bar heitið Vanhirt hús í miðborg Reykjavíkur og þar var minnst á Njarðargötu.

Benóný Ægisson, fyrrverandi formaður samtakanna, segir að lítið hafi heyrst í borgaryfirvöldum í kjölfar skýrslunnar.

„Ég get ekki sagt að það hafi verið mikil viðbrögð við þessari skýrslu. Okkur var þakkað fyrir ábendingarnar og lofað aðgerðum því húsið er heilsuspillandi og hættulegt,“ segir Benóný.

Að sögn Benónýs kviknaði í húsinu skömmu fyrir aldamót. Lögreglan hafi í kjölfarið bent á að húsið væri hættulegt. „Það hefur samt ekkert gerst síðan þá,“ segir hann og getur ekki leynt vonbrigðum sínum gagnvart stjórnsýslu borgarinnar.

Fréttablaðið/Anton Brink

Morgunblaðið fjallaði um Njarðargötu 35 árið 2008. Í umfjöllun blaðsins sagði nágranni að húsið hefði ekki verið kynt í mörg ár.

Í fréttinni var bent á að deilur væru um leyfi sem eigandinn fékk frá skipulagsyfirvöldum til að bæta einni og hálfri hæð ofan á húsið. Nágrannar hafi mótmælt þessu.

Það er því nánast störukeppni milli eigandans og borgaryfirvalda. Eigandinn vonast eftir því að borgin gefi eftir og leyfi sér að lagfæra húsið og bæta þessari einni og hálfu hæð við en geti í skjóli eignarréttar beðið, nánast eins lengi og honum hugnast.

Fréttablaðið/Anton Brink

Magnús Sædal Svavarsson, fyrrum byggingafulltrúi Reykjavíkurborgar, segir að það sé neyðarúrræði að beita dagsektum.

Magnús beitti sér í máli Njarðargötu 35 árið 2008 sem varð til þess verktakinn tók aðeins til og málaði húsið.

„Eigendur geta átt svona hús, borgað af þeim fasteignagjöld sem eru ekki há af svona húsum og vonað að tíminn vinni með þeim. Að borgin láti undan og leyfi fyrirhugaðar framkvæmdir.“

Heimild: Frettabladid.is