Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við 2.000 fermetra verksmiðjuhús hafnar í Neskaupstað

Framkvæmdir við 2.000 fermetra verksmiðjuhús hafnar í Neskaupstað

132
0
Framkvæmdir við 2.000 fermetra verksmiðjuhús hafnar. Ljósm. Smári Geirsson

Að undanförnu hefur verið unnið af fullum krafti að stækkun fiskimjölsverksmiðju og löndunarhúss Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

<>

Gert er ráð fyrir að stækkun fiskimjölsverksmiðjunnar verði skipt í tvo áfanga og í fyrri áfanganum, sem nú er unnið að, verði reist 2000 fermetra verksmiðjuhús og komið upp lítilli verksmiðjueiningu sem á að afkasta allt að 380 tonnum á sólarhring.

Í síðari áfanganum verður síðan komið upp búnaði sem eykur afkastagetu verksmiðjunnar úr um 1800 tonnum í 2380 tonn.

Mun hinum nýja búnaði verða komið fyrir í skrefum þannig að framkvæmdir munu ekki trufla framleiðslustarfsemi.

Eins og áður hefur verið greint frá mun litlu verksmiðjueiningunni verða ætlað að vinna afskurð frá fiskiðjuveri fyrirtækisins auk þess hún verður notuð við þróunarverkefni.

Áætlaður kostnaður við fyrri áfangann er 2,3 milljarðar króna og við síðari áfangann 2 milljarðar.

Framkvæmdir við löndunarhúsið fela í sér stækkun upp á 300 fermetra og þar verður einnig fjáfest í nýjum búnaði.

Í löndunarhúsinu fer fram hrognavinnsla á loðnuvertíðum og er ráðgert að tvöfalda afköstin.

Áætlaður kostnaður framkvæmdanna við löndunarhúsið er um 500 milljónir króna.

Framkvæmdirnar hófust sl. vor og er nú verið að reisa viðbygginguna við löndunarhúsið. Áður en byggingaframkvæmdir við stóra verksmiðjuhúsið hófust þurfti að færa ýmsar lagnir og leggja nýjar þannig að eiginlegar byggingaframkvæmdir eru nýlega hafnar.

Það eru þeir Jón Már Jónsson yfirmaður landvinnslu og Hafþór Eiríksson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja sem hafa umsjón með framkvæmdunum.

Þeir Jón og Hafþór segja að öllum framkvæmdum við stækkun löndunarhússins eigi að vera lokið í janúarmánuði nk. þannig að allt verði tilbúið þegar vinnsla á loðnuhrognum hefst á næstu loðnuvertíð.

Þeir leggja áherslu á að mikilvægt sé að fyrirtæki ráði yfir afkastamiklum búnaði við hrognavinnsluna því hún eigi sér stað á skömmum tíma rétt áður en loðnan hrygnir.

Fram kom í viðtali við þá Jón Má og Hafþór að aðstæður væru þannig við framleiðslu á fiskimjöli og lýsi að stundum þyrfti að vinna mikinn afla á skömmum tíma en svo þyrfti á öðrum tímum einungis að vinna afskurð frá manneldisvinnslu.

Af þessum ástæðum væri einkar hagkvæmt að ráða yfir verksmiðju með mikilli afkastagetu og eins yfir lítilli verksmiðjueiningu sem réði við að framleiða úr afskurðinum.

Unnið er að stækkun löndunarhúss. Ljósm. Smári Geirsson

Eins og fyrr greinir á afkastageta verksmiðjunnar að loknum framkvæmdunum að verða 2380 tonn en litla verksmiðjueiningin á að geta afkastað 380 tonnum.

Allt snýst þetta um að vinna hráefnið sem ferskast og tryggja að afurðirnar verði í sem mestum gæðum. Þá er einnig haft í huga að orkunýting verði sem allra best.

Eins ber að nefna að litla verksmiðjueiningin verður notuð til að þróa áfram aðferðir til að framleiða próteinríkar afurðir og verður sú þróunarvinna í samstarfi við Matís.

Að sögn þeirra Jóns Más og Hafþórs er það verulega krefjandi að vinna að umræddum framkvæmdum án þess að stöðva framleiðslustarfsemina í fiskimjölsverksmiðjunni en ekki kemur til greina að framleiðslu þar sé hætt á meðan makríl- og síldarvertíð stendur yfir.

Það eru mjög mörg verktakafyrirtæki sem koma að framkvæmdunum og segja þeir Jón og Hafþór að samvinna við þau sé með miklum ágætum.

Í tengslum við þessar framkvæmdir er rétt að vekja athygli á að hráefni til framleiðslu á mjöli og lýsi hefur minnkað mjög á undanförnum árum og fiskimjölsverksmiðjum hefur fækkað.

Þegar SR-mjöl hf. var sameinað Síldarvinnslunni árið 2003 voru sjö fiskimjölsverksmiðjur í eigu fyrirtækisins en nú eru þær einungis tvær; í Neskaupstað og á Seyðisfirði.

Heimild: SVN.is