Home Fréttir Í fréttum Nýr Herjólfur verður tvinnferja

Nýr Herjólfur verður tvinnferja

389
0
Mynd: eyjar.is

Vinna við undirbúning útboðs nýs Herjólfs er á lokametrunum og gert er ráð fyrir því að verkið verði boðið út í næsta mánuði. Heimild til útboðs var samþykkt í apríl á þessu ári.

<>

Í fyrirspurn sem Oddný G. Harðardóttir beindi til innanríkisráðherra í dag spyr hún hvort komið hafi til skoðunar að nýja ferjan verði rafdrifin að hluta eða öllu leyti og þá hlaðin á meðan hún lægi að bryggju. Í fyrirspurninni spyr hún einnig hvort flutnings- og dreifikerfi raforku í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn myndi standa undir hleðslustöðvum fyrir ferjuna.

„Það er gert ráð fyrir því í hönnuninni núna að ferjan verði svokölluð „hybrid“ eða tvinnferja,“ segir Friðfinnur Skaftason verkfræðingur og formaður stýrihóps um nýjan Herjólf. Ferjan myndi þá virka líkt og tvinnbílar sem eru rafdrifnir en rafmagnið er framleitt með díselknúnum vélum. Rafmagnið er geymt á þar til gerðum geymum.

Hleðsla með landtengingum gæti orðið veruleiki síðar
Fyrsta rafknúna ferja heimsins var tekin í notkun í Noregi fyrr á þessu ári en sú siglir milli bæjanna Lavik og Oppedal, sex kílómetra leið yfir Sognefjörð, 34 sinnum á dag. Siglingin tekur um tuttugu mínútur í hvert skipti.

„Tæknin sem varð fyrir valinu hjá okkur er komin lengra á veg heldur en raftæknin og að auki er ákveðin óvissa með dreifikerfið í bæði Landeyjahöfn og Vestmannaeyjum. Nýja ferjan yrði hins vegar þannig úr garði gerð að það yrði mögulegt að gera hana algerlega rafknúna þegar og ef sú tækni verður orðin betri,“ segir Friðfinnur.

Grófir útreikningar benda til þess að eldsneytissparnaður nýja Herjólfs verði allt að þrjátíu prósent samanborið við þann gamla. Í framtíðinni gæti verið hægt að nýta landtengingar til að hlaða hann ef aðstæður bjóði upp á það. Að auki mun nýja skipið rista grynnra en eldra skip og auðveldara verður að sigla því í mikilli ölduhæð.

Heimild: Eyjar.net