Home Fréttir Í fréttum Fjölbreyttar hugmyndir um uppbyggingu í Stóru-Brákarey

Fjölbreyttar hugmyndir um uppbyggingu í Stóru-Brákarey

91
0
Mynd: RÚV
Hugur er í Borgnesingum um framtíðaruppbyggingu í Stóru-Brákarey.
Skoðanir eru nokkuð skiptar um hvers kyns uppbygging á þar helst heima en flestir eru sammála um að nýta skuli eyjuna.
Ýmis starfsemi í eyjunni var lögð af í vetur vegna ófullnægjandi brunavarna.

Stóra-Brákarey býður upp á mikla möguleika í framtíðaruppbyggingu að mati heimamanna.

<>

Margar hugmyndir eru á lofti um íbúabyggð, veitingastaði og jafnvel sjóböð við eyna.

Stóra-Brákarey er tæpir fimm hektarar sem er nógu stórt til að rúma Óperuhúsið í Sydney.

Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri Borgarbyggðar segir að hugsa þurfi skipulag Brákareyjar alveg upp á nýtt.

„Nú eru tækifæri út af þessum húsnæðismálum sem við höfum verið í sem að veita okkur tækifæri til að breyta ímyndinni og skipulaginu í Brákarey.

Ég sé fyrir mér blandaða byggð þar sem eru menning,  smá atvinna og skemmtilegir íbúakjarnar eða slíkt.”

Áhugahópur með ástríðu fyrir uppbyggingu í Borgarnesi hefur ýmsar hugmyndir.

Gamlir Borgnesingar, brottfluttir og heimamenn, kjörnir fulltrúar, verktakar og smiðir eru þar á meðal. Sigursteinn Sigurðsson arkitekt er einn úr þeirra hópi.

„Það sem er kannski sniðugast er að hugsa um blandaða byggð. Þá erum við að meina að hafa menningarstarfsemi, kannski veitingahús, listasöfn og svoleiðis í bland við íbúabyggð.

Svo er eitt sem er mjög spennandi sem væri að gera einhvers konar baðstað þarna úti. Þá kannski heita potta í sjávarmálinu með sjóböðum og eitthvað svoleiðis.”

Innfæddir Borgnesingar stunduðu sjóböð löngu áður en slíkt komst í tísku.

Nú er tækifæri til að gera deiliskipulag fyrir Stóru-Brákarey að sögn sveitarstjórans:

„Enda er þetta svo flott eyja sem við höfum sem að hefur verið mikið undir atvinnustarfsemi sem að er að einhverju leyti að lognast út af.”

Sveitarfélagið á hluta af húsakosti í eynni. Þórdís Sif segir ljóst að rífa verði gamla frystihúsið, ákvörðun hafi enn ekki verið tekin varðandi önnur hús. Kostnaður við endurbyggingu sé hins vegar það mikill að sveitarfélagið ráði ekki við það.

Sigursteinn Sigurðsson arkitekt kveðst telja fólk sammála um að gríðarleg tækifæri felist í þeim demanti sem felist í Stóru-Brákarey þótt óslípaður sé.

Fornbílafélag Borgarfjarðar, golfklúbbur og skotfélag og Aldan vinnustaður fatlaðra voru með aðstöðu í gamla sláturhúsinu sem lokað var í febrúar vegna ófullnægjandi brunavarna.

Þessi samtök eru á vergangi eins og er og hefur það skapað nokkuð ósætti. Leitað er að húsakosti fyrir starfsemina.

Heimild: Ruv.is