Home Fréttir Í fréttum Vindmyllugarður á byrjunarreit

Vindmyllugarður á byrjunarreit

98
0
vindmyllur

Sveitarstjóri Rangárþings ytra segir að undirbúningur að uppsetningu á tíu vindmyllum í Þykkvabæ sé á frumstigi. Íbúar í Þykkvabæ hafa lagt fram undirskriftir 50 íbúa og landeigenda, þar sem vindmyllum á svæðinu er mótmælt.

<>

Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri segir að fyrir séu í Þykkvabæ tvær vindmyllur fyrirtækisins Biokraft, þær séu tilraunaverkefni. Ný áform fyrirtækisins snúist um tíu stærri vindmyllur. Umhverfismat sé skilyrði fyrir þeim og fyrirtækinu beri að undirbúa það. Biokraft hafi þegar skoðað þrjá staði undir vindmyllurnar, sem séu mislangt frá byggðinni. Hann telur að umhverfismat og aðdragandi þess muni taka langt í tvö ár. Þá komi til kasta sveitarfélagsins, sem eftir að íbúar hafa fengið tækifæri til athugasemda, eigi að meta hvort veita eigi framkvæmdaleyfi. Öll sú vinna verði í opnu ferli eins og lög geri ráð fyrir. Í því verði einnig áreiðanlega litið til svonefnds Búrfellslundar Landsvirkjunar. Það sé um 200 megavatta vindorkuver sem nú sé í umhverfismati, en frummatsskýrsla sé væntanleg.

Íbúar í Þykkvabæ afhentu í fyrradag sveitarstjóra og formanni skipulagsnefndar Rangárþings ytra mótmælaskjal gegn áformum Biokraft, með 50 undirskriftum. Gyða Árný Helgadóttir, íbúi í sveitinni, segir að það sé mikil samstaða meðal heimamanna gegn framkvæmdinni. Hún segir að vindmyllunum fylgi bæði sjónmengun og hljóðmengun og íbúarnir hafi fengið að reyna það á eigin skinni nú þegar.

Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri segir að framkvæmdir sem þessar geti fært íbúum og sveitarfélagi margvíslegan ávinning. Þar megi nefna fasteignagjöld, margfeldisáhrif og mótvægisaðgerðir sem eðlilegt sé að fyrirtæki skili til samfélagsins. Auðvelt sé að benda á atvinnu á meðan á uppbyggingu standi, en síðan fækki óneitanlega starfsmönnum mjög. ,,En engu að síður, þá eru nokkur störf sem fylgja þessu”.

Heimild: Ruv.is