Home Fréttir Í fréttum Byggingageirinn ekki kominn að þolmörkum

Byggingageirinn ekki kominn að þolmörkum

141
0
Ingólfur Bender fer hörðum orðum um opinberar tölur yfir fjölda íbúða í byggingu og fullyrðingar sem á þeim byggja. Aðsend mynd

Hagfræðingur SI segir enn ónýttan slagkraft í byggingageiranum sem nýta mætti til íbúðauppbyggingar.

<>

Ingólfur Bender hagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir það ekki rétt sem sumir hafi haldið fram, að byggingageirinn sé að vinna á fullum afköstum og gæti því ekki byggt hraðar.

„Hann getur alveg bætt við sig, það er alveg ljóst. Hann er langt frá þolmörkum í því. Hann er sveigjanlegur og vanur að bæta við sig og draga úr. Umsvifin í greininni nú eru talsvert frá því sem þau voru fyrir niðursveifluna.“

Þótt mikið sé að gera í opinberum innviðaframkvæmdum þessa stundina, sem sé vel, sé það ekki svo mikið að ekki sé svigrúm til frekari íbúðauppbyggingar.

„Það er ekki þannig umfang. Heildarfjárfesting í hagkerfinu hefur dregist nokkuð saman frá því sem var fyrir efnahagsáfallið. Það er því enn ónýttur slagkraftur innan greinarinnar sem hægt væri að fara með í íbúðauppbyggingu.“

Auk heildarfjárfestingar komi þetta meðal annars skýrt fram í vinnumarkaðstölum: enn séu færri starfandi og atvinnuleysi meira í greininni en var fyrir niðursveifluna.

Meingallaðar opinberar tölur
„Eitt af því sem við höfum hnotið um í þessari umræðu er að fólk er að beita fyrir sér tölum Hagstofunnar og Þjóðskrár um fjölda íbúða í byggingu, sem við höfum bent ítrekað á að eru meingallaðar,“ segir Ingólfur.

Þær tölur byggi á skráningu byggingafulltrúa sem skili sér jafnan bæði seint og illa, sem sé ástæða þess að samtökin hófu sína eigin talningu á íbúðum í byggingu fyrir rúmum áratug.

„Svo er verið að flagga þessum tölum núna sem einhverjum heilögum sannleik um að aldrei hafi verið byggt meira. Það er einfaldlega ekki rétt,“ segir hann og vísar í nýjustu tölur úr talningu SI frá því í mars, sem sýndu fimmtungssamdrátt milli ára, þann mesta frá því að talningar hófust árið 2010.

„Það er því kolrangt að það hafi aldrei verið byggt meira,“ segir hann og bendir sérstaklega á skort á íbúðum á fyrstu byggingastigum, sem fækkað hafi verulega á síðustu árum. „Þetta er besta vísbendingin um hversu mikið er að fara að detta inn á markaðinn á næstu 2-3 árum eða svo.“

Mikil óvissa um íbúðaþörf
Í nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um fasteignamarkaðinn er uppsöfnuð þörf metin um 4 þúsund íbúðir, og byggingarþörf um 3 þúsund íbúðir á ári næsta áratuginn. Ingólfur bendir þó á að mikil óvissa sé í tölum HMS, bæði yfir uppsafnaða þörf og áætlaða næstu árin.

„Þeir gefa út þetta miðgildi en bilið er tiltölulega breitt. Ef okkur gengur mjög vel í efnahagsmálum á næsta áratug – sem er jú væntanlega markmið flestra – þá er líklegt að það verði talsverður innflutningur á vinnuafli, sem hefði veruleg áhrif á íbúðamarkaðinn, eins og gefur að skilja.“

Heimild: Vb.is