Home Fréttir Í fréttum Vill sérfræðinganefnd til að rannsaka galla í byggingum

Vill sérfræðinganefnd til að rannsaka galla í byggingum

180
0
Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Fyrrverandi byggingarfulltúi Reykjavíkur vill að stjórnvöld skipi þriggja manna sérfræðinefnd til að kanna galla í nýlegum húsum svo hægt sé að fyrirbyggja endurtekningu. Húseigendur borgi fúlgur fjár vegna galla.

Magnús Sædal hefur langa reynslu af byggingum, en hann var byggingarfulltrúi í Reykjavík í tæpa tvo áratugi og var hjá byggingadeild borgarverkfræðings í áratug þar á undan.

<>

Hann segir að svo virðist sem byggingarrannsóknir eigi ekki upp á pallborðið hjá stjórnvöldum, búið sé að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður og Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins.

Mikið tjón sé í byggingum vegna galla sem stafað geti af hönnun, efni eða framkvæmd. Húseigendur greiði fúlgur fjár vegna mistaka.

Hann leggur því til að stjórnvöld skipi þriggja manna rannsóknarnefnd, nefndarmenn hafi allir hönnunarréttindi, einn sé burðarvirkishönnuður, annar lagnahönnuður og sá þriðji arkitekt. Hluverk hennar verði að láta rannsaka meiriháttar galla sem fram koma í byggingum innan sex til fimmtán ára frá því þær voru teknar í notkun.

„Tilgangurinn með rannsókninni er að leiða í ljós hvers eðlis gallinn var og veita út síðan út frá því fræðslu þannig að gallarnir verði ekki endurteknir,“ segir Magnús Sædal.

Samkvæmt tillögunni verði byggingarmeisturum, verktökum og rágjöfum skylt að tilkynna til nefndarinnar um þau verk sem ekki falla undir eðlilegt viðhald og nefndin síðan ákveði hvort rannsakað skuli frekar.

„Sérstaklega finnst mér vera orðin þörf á því þegar búið er að slátra öllum alvöru byggingarrannsóknum í landinu, sem er mjög mikið alvörumál að mínum dómi.“

Magnús segir galla í byggingum því miður allt of útbreitt vandamál, það sjái hann sjálfur á ferðum sínum um höfuðborgarsvæðið.

„Ég þekki dæmi af þrem húsum sem öll eru þrettán ára gömul frá því þau voru tekin í notkun og þar er verið að skipta um þakefni og hluta þakeinangrunar, kosntaður pr. íbúð að meðaltali þar er 1300 þúsund.“

Magnús segir að ekki ætti að koma að slíku viðhaldi fyrr en eftir 40 ár. Fyrir utan allt annað þýði þetta síðan miklu meiri efnisnotkun sem varla sé í anda þeirrar umhverfisverndar sem nú ríki.

Ekki liggi fyrir hvert umfang slíkra galla sé, en sporin hræði, segir Magnús og vísar í fyrri vandamál eins og alkalískemmdir og steypu sem ekki var frostþolin og fleira.

Tillöguna lagði hann fram í stjórn Húseigendafélagsins, en á von á að hún verði send stjórnvöldum.

„Sem að sjálfsögðu munu stinga henni undir stól.“

Heimild: Ruv.is