Home Fréttir Í fréttum Vilja koma í veg fyrir frekari framkvæmdir í Vesturdal

Vilja koma í veg fyrir frekari framkvæmdir í Vesturdal

246
0
Mynd: Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) hafa sent umhverfis- og auðlindaráðuneytinu stöðvunarkröfu á framkvæmdir um Vesturdalsveg sem tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði.

Framkvæmdir hófust í fyrrasumar

Vegurinn sem deilt er um er afleggjari frá Dettifossvegi niður í Vesturdal að bílastæðum við Hljóðakletta. Þar voru framkvæmdir hafnar í fyrrasumar en SUNN kærði þá framkvæmdina sem voru í kjölfarið stöðvaðar.

<>

Sif Konráðsdóttir er lögmaður Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi og fer fyrir málinu. „Í júlí í fyrra þá krafðist minn umbjóðandi Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi þess að framkvæmdir niðri í Vesturdal sem er í Jökulsárgljúfrum yrðu stöðvaðar því þær væru í ósamræmi við áætlun þjóðgarðsins, hvernig ætti að líta út þarna niðri í Vesturdal. Mikið uppbyggðir vegir og bílastæði,“ segir Sif.

Samtökin vilja að fagmaður sem kunni til verka þegar kemur að því að hanna viðkvæm svæði, líkt og það við Vesturdalsveg er, þannig að sem minnst rask verði á náttúrunni. Í deiliskipulagi frá 2013 hafi verið gert ráð fyrir lítilli hækkun á veginum en vegurinn sem hafist var handa við að byggja í fyrra sé mikið upphækkaður.

Kæra lögð fram um að stöðva framkvæmdina

Kæra var lögð fram í nafni samtakanna sem sögðu veginn ekki í samræmi við umhverfið og vildu að hann yrði endurhannaður. Þegar kæran kom fram hafði þegar verið hafist handa við að byggja veginn sem náttúruverndarsinnar telja hafa verið groddalega framkvæmd og mikið rask. Þau vilja að Vegagerðin lagi það svæði.

Mynd: SUNN – RÚV

Úrskurðarnefnd ógilti ekki framkvæmdina

Í febrúar var úrskurðað í málinu hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og þar var framkvæmdaleyfið ekki ógildað. Sif Konráðsdóttir, lögmaður SUNN, segir að úrskurðarnefndin telji sig ekki hafa heimildir til að fjalla um þetta neitt nánar því hún sé kærustjórnvald og hafi ekki neina ákvörðun eða athöfn eða athafnaleysi sem hún hafi heimild til að fjalla um.

Sif bætir við að úrskurðarnefndin ógildi ekki framkvæmdaleyfið og að nefndin segist ekki hafa lagalegar heimildir til að fjalla um aðra þætti málsins. Sif hefur nú sent ítrekun á stöðvunarkröfuna fyrir hönd Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi.

Í erindinu gagnrýna samtökin bæði aðgerðaleysi stjórnsýsluaðila í Norðurþingi og þjóðgarðsvörð sem að þau segja að hafi ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni í samræmi við lög. Náttúruverndarsinnar sjái fyrir sér lágstemmdan, óuppbyggðan en þó klæddan veg í gegnum tjaldsvæðið í Vesturdal og sendi því stöðvunarkröfu til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins en hafi ekki enn fengið svör.

Heimild: Ruv.is