Home Fréttir Í fréttum Tjónið vegna aurskriðunnar hleypur á milljónum króna

Tjónið vegna aurskriðunnar hleypur á milljónum króna

95
0
Mynd tekin í dag, 5. júlí 2021. Mynd: Fréttablaðið/Valli

Bótaskylt tjón vegna aurskriðunnar í Varmahlíð hleypur sennilega á nokkrum milljónum króna. Þetta kemur fram í svari Náttúruhamfaratryggingar Íslands við fyrirspurn Fréttablaðsins.

<>

Aurskriða féll í Varmahlíð á miðvikudag í síðustu viku með þeim afleiðingum að rýma þurfti níu hús við Laugarveg og Norðurbrún. Allar fjölskyldur sneru svo aftur heim á föstudag. Tvö hús, sem stóðu fyrir neðan brekkuna sem skreið fram, urðu fyrir tjóni og voru mörg herbergin í kafi í drullu.

Búið væri að moka drullu út úr húsunum sem urðu undir í skriðunni og hreinsun hafin. Matsmenn á vegum NTÍ hafa nú skoðað tjónið á þessum tveimur húsum og innbúi og gert gróft mat.

„Gera má ráð fyrir að bótaskylt tjón af hálfu NTÍ hlaupi á nokkrum milljónum króna. Samkvæmt lögum um NTÍ er ekki heimilt að vátryggja vegi, götur og lóðir,“ segir Jón Örvar Bjarnason, sviðsstjóri vátryggingasviðs.

Lengi hefur verið fylgst með sprung­unni í götunni fyrir ofan Laugarveg sem olli aur­skriðunni. Mynd: Fréttablaðið/Valli

Íbúar í Varmahlíð voru æfir af reiði í kjölfar aurskriðunnar og sagði Erna Geirsdóttir, sem býr á Laugarvegi, að bæjaryfirvöld hafi vitað af vandamálinu í langan tíma en lítið aðhafst.

Vatn hafi runnið úr hæðinni á milli húsanna eins og bæjarlækur og hafði jarðfræðingur komið við og bannað börnum að sofa í húsinu fyrir neðan brekkuna, þeim megin sem aurskriðan féll um daginn.

„Brekkan í næstu götu fyrir ofan okkur hefur verið smátt og smátt að skríða fram í um fjóra mánuði,“ sagði Erna í samtali við Fréttablaðið síðasta þriðjudag.

Heimild: Frettabladid.is