Home Fréttir Í fréttum Leggja 4 milljarða til viðbótar í hótel

Leggja 4 milljarða til viðbótar í hótel

218
0
Framkvæmdir við glæsihótelið Marriott Reykjavík Edition eru langt komnar og er stefnt að opnun þess síðsumars. Mynd: Eggert Jóhannesson

Hlutafé Cambridge Plaza Hotel Company ehf., félags utan um byggingu Marriott Reykjavík Edition hótelsins við Hörpu, var nú nýlega aukið um fjóra milljarða króna. Í kjölfar þessarar hlutafjáraukningar hefur meira fé verið sett í félagið en til stóð í upphafi.

<>

Herma heimildir Viðskiptablaðsins að ráðist hafi verið í hlutafjáraukninguna vegna aukins kostnaðar sem tafir við að opna hótelið hafa haft í för með sér. Þar hefur COVID-19 heimsfaraldurinn sett stórt strik í reikninginn. Upphaflega stóð til að hótelið yrði opnað árið 2018 en nú er stefnt á að það verði opnað síðsumars.

Eignarhlutur Mandólín hf., félags sem heldur utan um eignarhlut íslenskra fjárfesta í Cambridge Plaza Venture Company, mun í kjölfar hlutafjáraukningarinnar haldast óbreyttur, eða um 70%, samkvæmt heimildum blaðsins.

Samkvæmt ársreikningum Mandólíns fyrir árin 2019 og 2020 var félagið búið að uppfylla öll áskriftarloforð í hóteluppbygginguna við Hörpu árið 2020, sem hljóðaði upp á 42 milljónir dollara.

En eins og fyrr segir var ráðist í nýafstaðna hlutafjáraukningu til að bregðast við auknum kostnaði vegna þeirra tafa sem orðið hafa á verkefninu.

Framtakssjóðurinn SÍA III, sem rekinn er af verðbréfafyrirtækinu Stefni, á 49,9% hlut í Mandólín. Félögin Stormtré ehf., sem er í eigu Hreggviðs Jónssonar, og Snæból ehf., í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns R. Stefánssonar, eiga sitthvorn 12,5% hlut. Þá á Vitinn Reykjavík ehf. 9,4% hlut, en umrætt félag er 67% í eigu Vörðu Capital og eftirstandandi 33% eru í eigu ótilgreindra erlendra aðila.

Loks á Almenni lífeyrissjóðurinn 6,2%, Festa lífeyrissjóður 5,4% og Feier ehf. 4,06% hlut í Mandólín. Feier er í jafnri eigu hjónanna Hjörleifs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg.

Tap vegna gangvirðisbreytinga

735 milljóna króna tap var á rekstri Mandólíns á síðasta ári. Má rekja það til gangvirðisbreytinga í Cambridge Plaza  Venture Company ehf. vegna óvissu um áhrif Covid-19 á rekstur hótelsins.

Í bókum Mandólíns er 70% hluturinn í hótelverkefninu metinn á rúma fjóra milljarða. Félagið lagði tæplega 1,3 milljarða í verkefnið á síðasta ári og var eigið fé í lok árs 4,1 milljarðar króna, sem er 17% hækkun á milli áranna 2019 og 2020.

Eftirstandandi 30% hlutur í félaginu utan um Edition-hótelverkefnið er í eigu bandaríska fasteignaþróunarfélagsins Carpenter & Company. Meðal hluthafa í bandaríska félaginu er fjárfestirinn Eggert Dagbjartsson.

Til að byrja með lagði umrætt félag til meirihluta fjármagns inn í hótelverkefnið en það ku ávallt hafa staðið til að íslensku fjárfestarnir myndu smám saman eignast meirihluta í verkefninu með hlutafjáraukningum.

Heimild: Vb.is