Home Fréttir Í fréttum Tólf íbúða blokk reist á einum degi

Tólf íbúða blokk reist á einum degi

651
0
Einingar teknar af palli flutningabíls á þriðjudaginn og settar beint á sökkul væntanlegs fjölbýlishúss. Ljósm. arg.

Um síðustu helgi lagðist lítið flutningaskip að bryggju á Akranesi. Um borð voru einingar sem fljótlega var hafist handa við að skipa á land.

<>

Á þriðjudag var ekið með þessar einingar í lögreglufylgd að lóðinni Asparskógum 19 í Skógarhverfi og tólf íbúða húsi á tveimur hæðum raðað upp á sökklana. Lauk því verki samdægurs.

Meðan einingarnar eru enn á flutningabílnum eru umbúðir teknar utan af þeim og þær þvínæst hífðar á sökkul. Inni í hverri einingu er allt frágengið en það var gert í verksmiðju í Lettlandi. Ljósm. arg.

Næsta dag hófst tíu manna lettneskur vinnuflokkur handa við ýmsan frágang, meðal annars að setja klæðningu utan á húsið og reisa svalir en þær voru sömuleiðis úr forsmíðuðum einingum. Einnig koma íslenskir iðnaðarmenn að verkinu, svo sem pípulögnum og frágangi á lóð.

Neðri hæðin komin á sinn stað. Ljósm. arg.

 

Það er fyrirtækið Modulus sem byggir húsin og selur íbúðir í þeim. Fyrr á þessu ári voru afhentar íbúðir í systurhúsi við hliðina á Asparskógum 21, sem allar seldust og er nú flutt inn í þær. Íbúðirnar eru tveggja og þriggja herbergja, frá 56-73 fermetrar og er ásett verð frá 29,9 milljónum króna til 35,9 milljónir.

Í dag var byrjað að slá lektum utan á húsið og undirbúið fyrir klæðningu. Ljósm. mm.

Samkvæmt fasteignasöluvef Domus Nova er afhending íbúða í húsinu í ágúst – september á þessu ári.

Nýja fjölbýlishúsið við Asparskóga 19 er einungis lítill hluti af þeim húsum sem nú eru í byggingu í Skógarhverfi. Þar er nú unnið í fjölmörgum húsum á ýmsum byggingarstigum sem ýmist eru staðsteypt eða reist úr forsmíðuðum einingum.

Flutt var inn í íbúðir fjölbýlishússins við Asparskóga 21 í vor en húsið á lóðinni fjær verður eins útlítandi. Ljósm. mm.

Heimild: Skessuhorn.is