Home Fréttir Í fréttum Sláandi myndir sýna loftræstingu Fossvogsskóla: „Þetta er stjörnuvitlaust“

Sláandi myndir sýna loftræstingu Fossvogsskóla: „Þetta er stjörnuvitlaust“

335
0
Samsett mynd/Ernir

Myndir sem Fréttablaðið hefur undir höndum sýna ástand loftræstiinntaks Fossvogsskóla við lok framkvæmda í september í fyrra.

<>

Var þá búið að verja um hálfum milljarði króna og meira en ári í viðgerðir á skólahúsnæðinu vegna þess að hópur nemenda og starfsfólks fann fyrir einkennum myglu í húsnæðinu.

Samkvæmt myndatökumanni sem vildi ekki koma fram undir nafni voru myndirnar teknar í september í fyrra. Aðsend mynd

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á öllum þremur byggingum Fossvogsskóla til að freista þess að losna við alla myglu og rakaskemmdir úr húsnæðinu. Ráðist var í umfangsmiklar framkvæmdir árið 2019, svo var ráðist í viðgerðir í fyrra eftir að nemendur fundu áfram fyrir einkennum. Nú hefur verkfræðistofan Efla skilað drögum að minnisblaði þar sem segir að fyrri framkvæmdir hafi ekki reynst fullnægjandi.

Aðsend mynd

Málið verður tekið fyrir á fundi borgarstjórnar í dag.

Fram kemur í minnisblaði Eflu sem birt var í síðustu viku að loftræstikerfum í skólahúsnæðinu hafi verið verulega ábótavant. „Loftræsikerfum Vesturlands og Meginlands er verulega ábótavant.

Loftræsikerfi eru ekki öll í brunahólfi og inntök eru óheppilega staðsett. Í Austurlandi er ástandið skárra en þarfnast engu að síður uppfærslu. Brunavarnir virðast vera í ólagi í öllum loftræsikerfunum,“ segir í minnisblaðinu.

Samkvæmt upplýsingum var loftræstikerfið til umræðu á foreldrafundi í síðustu viku, kom þá fram að mygla hefði fundist í inntakinu á loftræstikerfi skólans og að hún hafi verið hulin með klæðningu.

Óttast að ástandið sé verra í eldri byggingum

Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla, segir myndirnar sláandi.

„Það var fullyrt við okkur áður en myndirnar voru teknar að búið væri að fara yfir loftræstikerfið og skipta um það,“ segir hann.

„Þessar myndir virðast sýna inntökin á loftræstingunni á sama tíma og verið er að fullyrða við foreldra og starfsfólk að það finnist engin orsök myglugróa í húsnæðinu. Og að þeir ætli að hætta því þeir finni þau ekki. Annað hvort er eftirlitið gallað eða menn hafa vísvitandi hvort fram hjá þessu. Líklegast er það blanda af hvoru tveggja. Þetta er stjörnuvitlaust.“

Karl Óskar segir að myndirnar séu af loftræstinntakinu á nýjustu byggingunni, hann óttast að ástandið sé verra í eldri húsunum, „Ég hef ekki séð loftræstikerfin, en mér er sagt að þetta sé uppbyggingin á inntökunum.“

Á fundi með foreldrum í september í fyrra lagði fulltrúi Náttúrufræðistofnunar áherslu á góða loftræstingu. Í yfirlýsingu borgarinnar frá því í desember síðastliðnum sagði að búið væri að taka húsnæðið í gegn og „koma í veg fyrir rakavandamál“. Í svari borgarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins um þessa yfirlýsingu segir að hún hafi verið grundvölluð á þeirri vitneskju sem var til staðar í desember 2020. „Í byrjun árs 2021 fara svo að berast tilkynningar um áframhaldandi einkenni hjá nemendum. Þá komu fram eindregnar óskir foreldra um að fá verkfræðistofuna Eflu til að taka út verkið. Við því var orðið,“ segir í svarinu.

Sveppavöxtur í lofthreinsisíum

Fram kemur í minnisblaði Verkís frá því í febrúar síðastliðnum um niðurstöður sýnatöku sem sendar voru á Náttúrufræðistofnun Íslands að sveppavöxtur fannst í 11 mánaða gömlum lofthreinsisíum. Kemur fram að skipt sé um lofthreinsisíur í kerfum Reykjavíkurborgar einu sinni á ári, var skipt um þær í desember.

„Þeir sveppir sem greinast í síum loftræsibúnaðar koma úr útilofti. Því er áhugavert að sjá tíðan vöxt varhugaverðra sveppa,“ segir í minnisblaði Verkís. Þar segir einnig að taka þurfi tillit til að mikið magn af lofti fara í gegnum síurnar.

Kennsla fer nú fram í Korpuskóla, ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdum við Fossvogsskóla lýkur.

Mynd frá Reykjavíkurborg sem sýnir annað sjónarhorn af aðstæðum. „Þar sem sést brúnn mótakrossviður og svolítið sag við inntakið á loftræsikerfinu,“ segir teymisstjóri. Mynd: Reykjavíkurborg

Frétt uppfærð 17:30

Bergþóra Eva Guðbergsdóttir, teymisstjóri á skrifstofu Borgarstjóra segir það í forgangi hjá Reykjavíkurborg að endurnýja lofræstikerfi í þeim framkvæmdum sem eru framundan við Fossvogsskóla.

Áður kom fram að verkfræðistofan Verkís hafi séð um fyrri framkvæmdir, en Bergþóra segir að verkfræðistofan hafi ekki annast hönnun eða haft umsjón með endurbótum á loftræstingu í Fossvogsskóla.

Þá segir í athugasemd Reykjavíkurborgar að myndin sýni útkastið og fer því ekki inn í húsið og hefur þannig ekki áhrif á loftgæði.

Heimild: Frettabladid.is